Elsta jólatréð prýddi Hrunakirkju

Elsta jólatréð prýddi Hrunakirkju

Elsta varðveitta jólatréð, sem smíðað er á landinu, prýddi Hrunakirkju í hátíðarmessu á jóladag. Tréð var smíðað af Jóni Jónssyni í Þverspyrnu árið 1873.

Marta Esther Hjaltadóttir, meðhjálpari  og formaður sóknarnefndar Hrunasóknar, óskaði eftir því við Byggðasafn Árnesinga að fá tréð í kirkjuna þessi jól. Þetta kemur fram á vefsíðu Hrunaprestakalls.

Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur í Hrunakirkju, sagði frá trénu í prédikun sinni í messunni í gær. „Þetta mun vera elsta varðveitta smíðaða jólatréð á landinu og örugglega það fyrsta hér í Hrunamannahreppi.  Tréð var smíðað að beiðni hinnar danskættuðu prestmaddömu í Hruna, Kamillu sem var eiginkona séra Steindórs Briem (1849-1904, prestur í Hruna 1873-1904).  Síðar fylgdi tréð dóttur þeirra hjóna, Elínu Steindórsdóttur Briem, að Oddgeirshólum í Flóa og mun hafa verið í notkun allt fram til 1950.“

Tréð er úr greni og var í æsku Elínar þakið krækiberjalyngi á jólum. Lyngið var haft til á haustin og geymt til jólanna. Kerti voru síðan á hverri grein og eitt á toppi trésins, alls 39. Elín var í kirkjunni í gær en hún rifjaði upp bernskujólin í grein sem birtist í Goðasteini, og vitnaði Óskar í greinina í ræðu sinni:„Klukkan sex á aðfangadagskveld var kirkjuklukkum hringt og kveikt á altari, hjálmum og orgeli.  Fóru þá allir sem gátu út í kirkju og sungu jólasálma. Þegar mikið var dimmt úti, fórum við með lugt sem afi átti. Þegar komið var inn úr kirkjunni var matast. Þegar við komum frá afa, var búið að kveikja á jólatrénu hjá mömmu og pabba og horfðum við hugfangin á það um stund, en ekki voru kertin látin brenna út, því aftur var kveikt á þeim á gamlárskveld.“

frétt ruv.is

Comments are closed.