Farsakennd atburðarrás í Flóanum.

Farsakennd atburðarrás í Flóanum.

Þann 27. apríl síðastliðinn var skólastjóra Flóaskóla, Önnu Gretu Ólafsdóttur, fyrirvaralaust sagt upp störfum.

Sú ákvörðun sveitarstjórnar að „reka“ skólastjóran hefur vakið sterk viðbrögð íbúa Flóahrepps sem og starfsmanna skólans og hafa ekki færri en 6 starfsmenn skólans sagt upp störfum til að sýna samstöðu með Önnu Gretu Ólafsdóttur, fráfarandi skólastjóra og til að mótmæla gerræðislegri framkomu sveitarstjórnarinnar.

Þá hefur verið boðað til íbúafundar n.k. mánudag þar sem starfsfólk skólans, foreldrar skólabarna og aðrir íbúar hreppsins hyggjast krefja sveitarstjórn svara um ákvörðun þessa.

Eydís Þ. Indriðadóttir, sveitarstjóri og Árni Eiríksson oddviti.

Það sem sveitarstjóri og sveitarstjórn hefði átt að kynna sér áður en af stað var farið!

(ATH: aðeins er tekinn útdráttur úr lögunum sem við eiga.)

Lög um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla.

 1. KAFLI

Til hverra lög þessi taka.

 1. gr.

Lög þessi taka til hvers kennara og skólastjórnanda við grunnskóla í þjónustu sveitarfélaga o.s.frv…

Í 4. grein laganna er fjallað um að starfsmaðurinn gegni þeirri stöðu sem hann er ráðinn til þar til eitthvað af eftirtöldum atriðum komi til:

 1. að hann brýtur af sér í starfinu, svo að honum beri að víkja úr því,
 2. að hann fullnægir ekki skilyrðum 3. gr. laga þessara,
 3. að hann fær lausn samkvæmt eigin beiðni,
 4. að hann hefur náð hámarksaldri, sbr. 13. gr.,
 5. að hann flyst í aðra stöðu sem veitir hliðstæð réttindi hjá sveitarfélagi,
 6. að staðan er lögð niður, sbr. 14. gr.

 

(Ekkert þeirra atriða sem tilgreind eru eiga við um uppsögn Önnu Gretu Ólafsdóttur skólastjóra.)

III. KAFLI

Um lausn úr stöðu.

 1. gr.

Sveitarstjórn veitir starfsmanni lausn frá stöðu um stundarsakir…

Rétt er að veita starfsmanni lausn um stundarsakir ef hann hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi sínu, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykir að öðru leyti ósæmileg, óhæfileg eða ósamrýmanleg því starfi. Þó skal veita starfsmanni áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er veitt lausn um stundarsakir samkvæmt þessari málsgrein.

Þá er í 8. grein fjallað um að mál starfsmannsins skuli rannsakað af kunnáttumönnum eða að hætti opinberra mála.

 1. gr.

Jafnan skal starfsmanni sem víkja skal úr stöðu veittur kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun er tekin, ef þess er kostur.

Rétt er þeim er vikið er úr stöðu að bera málið undir úrlausn dómstóla. Stefna skal sveitarsjóði fyrir hönd sveitarfélags.

 1. gr.

Samþykkt á Alþingi 29. maí 1996.

———————————————————

Þann 27. apríl síðastliðinn, var sem fyrr segir, Anna Greta Ólafsdóttir, skólastjóri Flóaskóla boðuð á fund sveitarstjóra Flóahrepps þar sem henni var, þegjandi og orðalaust afhent uppsagnarbréf.

Bréf þetta hefur verið meðhöndlað sem trúnaðarmál af hálfu sveitarstjóra og sveitarstjórnar Flóahrepps og fundargerð sem bréfið grundvallast á er ekki að finna í neinni fundargerð Flóahrepps.

Mér hefur nú  borist bréfið í hendur með öðrum hætti.

Efni bréfisins er eftirfarandi:

Þingborg. 27. apríl 2017.

Efni: Uppsögn.

Hér með er þér, Önnu Gretu Ólafsdóttur kt… o.s.frv. sagt upp störfum sem skólastjóri Flóaskóla.

Er uppsögning byggð á hnignandi skólastarfi, óánægju foreldra með skólastarf og samskipti við foreldra, trúnaðarbrest við nemendur, samskiptaörðugleika við sveitarstjóra og sveitastjórn, vankunnáttu og óvandvirkni í starfi sem og skipulagsleysi og erfiðleikum við stjórnun skólans.

O.s.frv. … Lesa má uppsagnarbréfið í heild sinni HÉR

(Hér má taka fram, að staðfest er af hálfu beggja málsaðila að fráfarandi skólastjóra hafi aldrei verið birt áminning vegna starfa hennar við skólann).

En hér eru hroðalegar missagnir og vægast sagt óvandað og illa ígrundað plagg svo ekki sé meira sagt. Sérstaklega þegar haft er í huga að það er samið af æðsta stjórnstigi sveitarfélagsins og í það minnsta geri ég meiri kröfu til þeirra aðila en svo.

 1. „Hnignandi skólastarf“ –

(það þarfnast frekari útskýringa við. M.a. hlýtur að vera krafa um samkvæmt hvaða mælikvarða sú hnignun er mæld sem hér er nefnd og hver framkvæmdi þá mælingu, sem lögð er til grundvallar uppsagnarinnar. Ekki getur það verið huglægt mat sveitarstjórnarmanna sem vegur svo þungt.

 1. Þá er það „Óánægja foreldra með skólastarf og samskipti við foreldra.“

(Ef marka má viðbrögð starfsmanna skólans og íbúa sveitarfélagisns þá er varla hægt að sannfærast um að sú óánægja sé almenn. En að allir séu ánægðir með allt í starfi og rekstir slíkrar stofnunar er auðvitað fráleit krafa.)

 1. „Trúnaðarbrestur við nemendur“.

(Það munar nú um minna. Trúnaðarbrestur er annað orð yfir svik – og er eitthvað sem stjórnsýslan verður að útskýra nánar í hverju „trúnaðarbrestur“ fráfarandi skólastjóra gagnvart nemendum skólans er fólgin.  Það verður að segjast eins og er að ef hún hefur vísvitandi  farið á bakvið nemendur sína og skilið þá eftir blekkta og niðurlægða þá er það háalvarlegt. En mig grunar þó frekar að hér sé um ofnotkun sveitarstjórans á „tískuorði“ að ræða.)

 1. „Samskiptaörðugleikar við sveitarstjóra og sveitarstjórn“.

(Þetta kom mér satt að segja á óvart því ég átti (hljóðritað) samtal fyrir hönd Fréttavefs Suðurlands, við Eydísi Þ. Indriðadóttur sveitarstjóra, um ástæður uppsagnarinnar þar sem ég spurði sérstaklega um samskipti hennar við Önnu Gretu. Hún kvað þau hafa verið með ágætum, utan eðlilegra ágreiningsmála sem alltaf má gera ráð fyrir að upp geti komið í svo stórum málaflokkum sem rekstur skóla sé í svo litlu sveitarfélagi. Skólinn er jú stærsti vinnustaður sveitafélagsins. En þær hafi þó ævinlega getað leyst úr ágreiningsmálum í sameiningu. Ég spurði í framhaldi af því í hverju sá ágreiningur hafi falist. Nú væri ekki mjög margt í daglegum rekstri skólans sem hún, sem sveitarstjóri þyrfti að hafa puttana í. Til þess væru aðrar stofnanir samfélagsins. Hún sagði þá að stór hluti af rekstrartekjum sveitarfélagsins rinnu til reksturs skólans og eðlilegt væri að sveitarstjóri hefði eitthvað um málin að segja. Þá lá beint við að spyrja hvort um einhverskonar misferli hafi verið að ræða eða hvort skólastjórinn fráfarandi hafi sýnt óráðsíu í fjármálum skólans. „Nei alls ekkert slíkt“ var svar Eydísar).

 

 1. „Vankunnáttu og óvandvirkni í starfi sem og skipulagsleysi og erfiðleikum við stjórnun skólans“.

(með hliðsjón að þessari tilgreindu ástæðu vekur það í það minnsta furðu mína, að sérstaklega er tekið fram í uppsagnarbréfinu að mælst sé til fullrar starfsþáttöku Önnu Gretu út uppsagnartímann. En einmitt á þeim tíma sem í hönd fer liggur fyrir samningur stundarskrár, ráðningarmál og skipulag næsta skólaárs. Það verður að teljast mótsögn ef sá óhæfi skólastjóri sem fær svo kaldar kveðjur frá sveitarstjórn Flóahrepps fær samt traust til að ljúka undirbúningi og skipulagi fyrir komandi skólaár.)

Kæri lesandi. Það er vægast sagt ömurlegt að kjörnir fulltrúar geti farið fram með jafn óvönduðum og ónærgætnum hætti svo maður tali ekki um ólögmætið eins og sveitarstjóri og sveitarstjórn Flóahrepps gerir hér. Þeir virðast treysta á, að með því að þegja af sér storminn þá verði allt gleymt og grafið og þau geti haldið hátíðarræðu á næstu skólasetningu eins og föðurlegum fulltrúum alþýðunnar sæmir.

Þó kosningar til sveitarstjórna sé löngu afstaðin og búið að skipa í öll ráð og nefndir og daglegt líf færst í eðlilegar skorður þýðir það ekki að kjörnir eða ráðnir fulltrúar fólksins geti leikið lausum hala og höggvið á bæði borð til þeirra sem þau bera persónulegan kala eða óvild til. Jafnvel þó einhverjir séu þeim sammála um þann atgang eða hafa jafnvel eggjað þau til verka. Og skeita þá engu þó það kosti samfélagið sem þeir eru þjónar fyrir ómælt fé í formi málarekstrar eða málsvarna, miskabóta og tvöfaldra launa til þess sem vikið var frá á ólögmætan hátt auk þeirra sem ráða þarf til að sinna hans starfi.

Ég hef í þessari grein farið nokkrum orðum um hvernig sveitarstjórn Flóahrepps með sveitarstjórann í broddi fylkingar (já það ætti að vera á hinn veginn) hefur farið á svig við lög og líklega skapað sveitarsjóði verulega skaðabótaskyldu, með í hæsta máta óvönduðum, gerræðislegum og ólöglegum vinnubrögðum.

En hér er líka annar og kannski enn mikilvægari þáttur.

Starfsframi ungrar athafnarkonu sem lagt hefur sig meira fram til að sækja menntun sína og brjótast áfram til metorða í sínu fagi, en almennt gerist. Starfsheiðri hennar og sjálfsmynd er misboðið. Heimilisöryggi fyrir borð borin og bitur veruleikinn blasir við. Ekki vegna þess að hún hafi staðið sig illa í starfinu sínu, sem ég er viss um að hún hefur þó sífellt haft í huga hvernig hún gæti sem best sinnt enn betur. Heldur vegna persónulegrar óvildar eins af lykilmönnum í stjórnsýslunni.

Almannarómur innan sveitarinnar hvíslar að mér að aldrei hafi farið vel á með þeim Eydísi Þ. Indriðadóttur, sveitarstjóra og Önnu Gretu Ólafsdóttur, skjólastjóra og hafi sú fyrrnefnda unnið ötullega að því að grafa undan trausti og tiltrú samstarfsmanna sinna og áhrifamanna sveitafélagsins á störfum þeirri síðarnefndu. Hvernig sem á því stendur, því s.v.k. stjórnsýslulögum á sveitarstjórinn og sveitarstjórn að fylgjast með fjárreiðum skólans en vísa faglegum málum til yfirvalda skólamála telji þeir þess þurfa. Enda hafa þeir hvorki menntun né forsendur til að meta hvort eða hve mikil hnignun eða uppgangur skólastarfsins er. Að ætla sér slíkt er í besta falli verulegt ofmat á eigin getu og ágæti.

Ég sé ekki aðra leið fyrir sveitarstjóra og sveitarstjórn Flóahrepps, þ.e.a.s. ef þeim líður illa í þeim forarpitti sem þau sjálf settust í, en að afturkalla uppsögn skólastjórans og setja hennar mál í lögbundið ferli hjá yfirvöldum skólamála og biðja samsveitunga sína og aðra viðkomandi auðmjúklega afsökunar og sýna iðrun með því að víkja tafarlaust úr öllum trúnaðarstörfum sem þeim hefur verið falið að sinna.

Lögin sem vitnað er til í grininni má lesa HÉR

Ólafur Þór Ólafsson
greinarhöfundur og faðir Önnu Grétu Ólafsdóttur

P/S Rétt um það bil að ég var tilbúinn að birta þessa grein barst mér til eyrna að fulltrúar sveitastjórnar hafa látið í veðri vaka við Önnu Grétu og stuðningsaðila hennar að hún ætti að fara varlega í að kalla eftir skýringum á uppsögninni, því þeir hafi „bunka“ af gögnum undir höndum sem óþægilegt gæti reynst henni að yrði opinberaður.

Ég segi. Þar toppar sveitarstjóri og hans fylgendur lágkúruna.

Þetta rifjar reyndar upp fyrir mér vísukorn sem ég greip á hraðbergi fyrir nokkrum áratugum og varð mér minnistætt.

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

Þannig orti Páll Árdal (1857-1930) um rógberann.

Comments are closed.