Höfundur greinarinnar er Veronika Ómarsdóttir

Höfundur greinarinnar er Veronika Ómarsdóttir

Frau Ómarsdóttir

Af tungumálaörðuleikum og nafnaeigingirni

Veronika er búsett í Vínarborg

Veronika er búsett í Vínarborg

 • Frau Ómarsdóttir, was essen die isländsiche Leute gern?
 • Hmm, wir essen sehr gern Kinder, unsere Hauptspeise!
 • Kinder?
 • Ja, genau, Kinder…

Allir í þýskukúrsinum störðu á mig

Ég leit vandræðalega á kennarann sem spurði mig aftur með glottglampa í augunum,

 • Öööm Kinder, sicher?

Ég blaðaði snögglega í orðabókinni, eldrauð í framan, ógvuð, hvað er ég núna að segja!

 • Nein, nein! Lamm! Ich meine Lamm!

Því við borðum jú mun frekar lambakjöt en barnakjöt!

Þetta er eitt af þeim ófáu skiptum sem tungumálaörðuleikar hafa komið mér í óþæginlega og vandræðalega aðstöðu.

 

Það er eins og mamma og pabbi hafi alltaf vitað að ég yrði flökkukind. Þetta byrjaði í skírninni, 1991;

 • og hvað á barnið að heita?
 • Veronika, Veronika Ómarsdóttir
 • Já einmitt, C eða K?
 • K
 • Tvö K?
 • Nei, eitt
 • Ó eða o?
 • O
 • I eða í?
 • I

Og það sama hefur vafist fyrir mörgum í kortaskrifum á afmælum og jólum.

Ekki þykir mér það skrítið, þetta er jú engan veginn íslenskt nafn! Langt því frá, enda hef ég aldrei skilið hvernig fólk getur deilt sama nafninu. Aldrei var ég í þeim aðstæðum að einhver kallaði Veronika á Íslandi og það ákall tilheyrði einhverjum öðrum en mér!

Því er hins vegar öðruvísi háttað þegar komið er útí heim.

Þegar ég var tólf ára fór ég í mínar fyrstu sumarbúðir, til hvers að fara í Vindáshlíð eða Vatnaskóg þegar hægt er að fara í alþjóðlegar sumarbúðir hvar sem er í heiminum. Ég fór til Finnlands, í heilan mánuð! Heill mánuður sem ég mátti einungis skrifa bréf til þeirra sem ég vildi hafa samband við á Íslandi, bréfin titluð:

Mamma og pabbi

Engjavegur 8

Selfoss

Þau einu og sönnu mamma og pabbi á Selfossi, þarf fleiri upplýsingar? Þau skiluðu sér þó öll á endanum. Mín fyrstu kynni af meginlandslífinu og ólíkum menningarheimum. Þetta var stórt stökk í djúpu laugina og þessar sumarbúðir opnuðu sjóndeildarhringinn hjá ungri stelpu virkilega mikið, krakkar frá tólf löndum, krakkar sem voru bara alveg eins og ég, þrátt fyrir allt annan uppruna.

Tveimur helgum af mánaðardvölinni var eytt hjá finnskum fjölskyldum, tvö og tvö saman. Fyrri fjölskyldan var yndisleg, seinni fjölskyldan var í brjóstsykursbransanum, bjuggu uppí sveit, en hjá þeim sváfum ég og Hollensk stelpa í trékofa milli trjánna um 500 metra frá húsinu þeirra. Það eina í þessum kofa var þetta týpíska finnska sauna og lítið herbergi við hliðina á, þið getið rétt ímyndað ykkur svitabaðið um nóttina og gráturinn yfir óréttlætinu og söknuðinum heim. En þvílík forréttindi að hafa fengið að upplifa þetta allt saman og get ég ekki annað en þakkað mömmu og pabba og CISV samtökunum fyrir þetta magnaða tækifæri!

Í þessum sumarbúðum áttað ég mig örugglega fyrst á því að nafnið mitt væri ekki svo alslæmt, að minnsta kosti ekki á alþjóðlega vísu. Allt í einu þurfti ég ekki að útskýra nafnið mitt og framburð þess, eins og vanalega á Íslandi, en hún Lára amma mín barðist ótrauð fyrir því að það væri rétt borið fram af manneskjum í kringum mig; Veronika ekki Verónikka!! Ég þurfti ekki mata hvern staf ofan í krakkana þarna úti og leiðrétta þau í hvert einasta skipti sem ég var nefnd á nafn. Enda hefði ég örugglega ekki haft það í mér, fimleikaferli mínum lauk þegar ég var 6 ára því að fimleikakennarinn kallaði mig alltaf Viktoríu og ég var bara engan veginn nógu sterk til að segja fyrirgefðu en ég heiti Veronika!

Ég kynntist hins vegar fyrstu Veronikunni þegar ég var 17 ára skiptinemi í Dóminíska Lýðveldinu, hún var skiptinemi frá Ítalíu og hafði því mun sterkari köllun til nafnsins. Við urðum aldrei góðar vinkonur, enda ég ekki alveg tilbúin í þessa nafnadeilingu. Í Dóminíska Lýðveldinu varð ég örugglega fyrst almennilega vör við þessa tungumálaörðuleika. Ég kom út, 17 ára gelgja, óundirbúin, kunni að segja ´Hola´, cialis en annað ekki. Ég hafði ekki hugmynd hvað ég var að hætta mér úti, 10 mánuðir í þessu frumstæða landi, búandi inni á fjölskyldu sem talaði einungis spænsku.

Þetta byrjaði auðvitað á fyrsta kvöldinu mínu þar sem ég á rúmstokknum í herberginu mínu með rauðhærðar áhyggjur af því hvort það væru moskítóflugur í herberginu.

Ég sat, þau stóðu öll fyrir framan mig og mynduðu hring í kringum mig, við öll í álíkri höfuðhæð þótt ég sæti.

Ég byrjaði að leika flugu með samanlagða vísifingur og þumalfingur, bssssssssss, ískraði ég og fór með hringlaga hreyfingum með puttana niður á vinstri hendina og sagði Áiii.

Þau horfðu asnalega á mig, greinilega að reyna að átta sig á því hvað þessi hvíta freknótta manneskja væri að reyna að segja þeim.

 • Gomer?

Nei, ég er ekki svöng, þá nudda ég bara magann og bendi uppí mig…

 • Inyección?

Nei, ég þarf ekki sprautu!

Bsssssss, gerði sömu leiktilþrifin. Einhverra hluta vegna hafði ég gleymt hvað þessar blessuðu flugur eru kallaðar, enda alveg rugluð og enn að reyna að átta mig á því að ég væri að fara að eyða næstu tíu mánuðum á þessum ókunna stað.

Bsss, ég reyndi aftur og enn aftur.

 • Bite. Áii! Mosssssskító! Já, það er orðið sem ég var að leita að!

Þau skildu enn ekki neitt

 • Mossssskító, bssssss.

AAAha, mokkííító og svo hlógu þau öll og ég sat með vandræðalegt bros á vör, æj hvað var ég að koma mér útí.

Eftir þrjá mánuði var tungumálið farið að síast inn, án allra bóka og tóla, bara með hlustun og mörgum pínlegum tilraunum til tjáninga. Þetta var lífsreynsla sem ég hefði aldrei viljað missa af og átti mikinn hlut í því að móta mig sem manneskju, mínar skoðanir og viðhorf. Því þetta opnar svo margt, sjóndeildarhirngurinn minn stækkaði um heilar 180 gráður, hlutir sem áður skiptu svo miklu máli hættu að skipta jafn miklu máli, það voru aðrir hlutir sem voru mikilvægari í þessu fátæka landi. Þetta reyndist vera hið fínasta fólk, þau hugsuðu mjög vel um mig og tóku mig strax inn í fjölskylduna, átti helst að kalla þau mömmu og pabba, sem mér þótti mjög furðulegt til að byrja með, en vandist vandræðalega vel og ég hætti að senda foreldrum mínum bréf titluð mamma og pabbi, því það var búið að bætast í þann hóp.

Veronika fór sem skiptinemi til Dóminíska Lýðveldisins

Veronika fór sem skiptinemi til Dóminíska Lýðveldisins

Veronika sækir sér mangó úr tré í Dóminíska Lýðveldinu

Veronika sækir sér mangó úr tré í Dóminíska Lýðveldinu

 

Fyrir tveimur og hálfu ári fluttum ég og kærastinn minn til Vínarborgar í Austurríki, algjörlega spondant ákvörðun, hann langaði til að fylgja óperudraumnum og ég ákvað að slá bara líka til og fara með honum í hámenninguna. Við keyptum okkur one-way-ticket út, pökkuðum öllu okkar dóti, harmoniku og gítar og stigum upp í vél í júlí 2013, án þess að hafa hugmynd um hvað biði okkar. Inntökuprófið í sönginn var ekki fyrr en í september og algjörlega óvíst hvort hann kæmist inn og sjálf hafði ég ekki hugmynd hvað mig langaði til að gera, var búin að prófa hin ýmsu nám en hafði ekki enn fundið það sem hentaði mér. Mig langaði til að upplifa eitthvað nýtt en fyrst og fremst langaði mig til að læra nýtt tungumál. Þetta er svolítið svona einu sinni prófað þú getur ekki hætt. Þegar maður hefur prófað það einu sinni þá vill maður upplifa það aftur, sama hversu oft það setur þig í óþæginlega aðstöðu. Upplifunin að skilja ekki neitt og svo allt í einu smellur það allt saman, allt í einu skilur þú fólkið sem er að tala við hliðina á þér, það opnar einhverja gátt sem er erfitt að lýsa, opnar á einhvern hátt annan heim. Þetta gerist ekki einungis með bóklegri kennslu í menntaskólum landsins, þetta gerist þegar þú býrð í landinu, menningin og fólkið, það er svo stór partur af tungumálinu.

Veronika og kærastinn hennar, Unnsteinn, stunda bæði nám í Vín í Austurríki

Veronika og kærastinn hennar, Unnsteinn, stunda bæði nám í Vín í Austurríki. Hér er Unnsteinn að undirbúa sig fyrir hlutverk í óperu.

Með vott af kæruleysi, dassi af forvitni og heilum helling af áhuga þá gekk þetta á einhvern hátt allt upp hjá okkur. Við lærðum þýskuna og stundum núna bæði nám í Vínarborg, hann í klassískum söng og ég fann loksins út hvað mig langaði að gera og stunda nú nám í innanhúshönnun. Ég viðurkenni það fúslega að þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt og oft á tíðum mjög erfitt. Það erfiðasta er að búa svona langt í burtu frá öllum þeim sem maður elskar á Íslandi, að vera ekki í þeirri menningu sem maður þekkir best og tala ekki sitt móðurmál. En í staðinn er ég búin að upplifa svo margt nýtt og læra svo óendanlega mikið á lífið, kynnast svo mikið af frábærum manneskjum, manneskjum allsstaðar að úr heiminum sem ég hef lært svo mikið af. Ég get ekki annað en hlakkað til næsta kafla, sama hvar hann verður, á Ítalíu, í Frakklandi, í USA eða bara á norðurlöndunum. Flökkukindin ég er sko ekki búin að kanna allt og það eru fleiri tungumál sem bíða eftir að ég sigri þær óþæginlegu og vandræðalegu aðstæður sem þau vilja setja mig í. Verum óhrædd við að fara út út þægindarammanum og kanna allt það sem lífið hefur upp á að bjóða.

Höfundur greinarinnar er Veronika Ómarsdóttir

Höfundur greinarinnar er Veronika Ómarsdóttir

Comments are closed.