Hægðu á þér!

Hægðu á þér!

Posted by

RunnersÞað er gríðarlega mikill hraði í þjóðfélaginu okkar. Það eru margir keppendur í lífsgæðakapphlaupi og þeir eru allir fullorðnir! Þeir hlaupa hratt, þeir reyna sumir að svindla, sumir hrinda öðrum frá til að komast lengra og hraðar og þeir allra verstu eru tilbúnir að stinga mann og annan í bakið (ekki bókstaflega) bara fyrir það eitt að ná sínu fram.

En ef allir þessir keppendur myndu prófa að hægja örlítið á sér og kíkja yfir öxlina, þá myndu þeir sjá að þeir gleymdu svolitlu á startlínunni…börnunum sínum!

Það er erfitt að vera keppandi í þessu hlaupi og viðurkenna það fyrir sjálfum sér að það hlýst fátt gott af þátttökunni. Það er erfitt að viðurkenna að við höfum misst fókusinn á það sem skiptir mestu máli og þegar samviskubitið fer að naga okkur að innan þá reynum við að réttlæta hegðun okkar með því að skella skuldinni á einhvern annan.

Hvað gera börnin okkar á meðan við hlaupum? Hver sinnir þeim og þörfum þeirra? Hversu miklum tíma dagsins verjum við með börnunum okkar? Og hvernig verjum við þeim tíma?

Við eigum það til að fá samviskubit vegna þess hversu lítið við erum búin að sinna börnunum okkar og þá á heldur betur að bæta upp fyrir glataðan tíma og það er gert eitthvað stórkostlegt! Farið til útlanda eða eitthvað álíka sem oft kostar mikið og jafnvel ekki til peningur fyrir. Slíkar ferðir eru góðar og gildar en það er líka tíminn á milli þessa samviskubita sem skiptir máli.

Það er meðal annars rútína, reglur og skýr skilaboð sem auka velllíðan hjá börnum. Að þau upplifi að það sé fylgst með þeim, þau viti að þau gangi að foreldrum sínum vísum og njóti ávallt stuðnings frá þeim. Að reglurnar í uppeldinu séu það skýrar að barnið sé aldrei í vafa um hvaða viðbrögð hegðun þeirra komi til með að kveikja hjá foreldrunum.

Hvort sem við erum þátttakendur í lífsgæðakapphlaupinu eða ekki þurfum við öll að staldra við af og til og skoða hvernig heimilislífið okkar er, því oft verðum við svo samduna ástandinu að við sjáum ekki hættumerkin. Tölum við börnin okkar, spyrjum þau hvernig þeim líður, hvernig þau upplifa heimilislífið og vinnið saman að því að bæta það sem betur má fara.

Eigið góðar samverustundir.

Comments are closed.