Háskóli Íslands á Laugarvatni

Háskóli Íslands á Laugarvatni

Anna Gréta Ólafsdóttir er skólastjóri Flóaskóla auk þess að hafa sinnt stjórnun menningarviðburða og tekið þátt í ýmsu íþrótta og menningartengdu frumkvöðlastarfi.

Anna Gréta Ólafsdóttir er skólastjóri Flóaskóla auk þess að hafa sinnt stjórnun menningarviðburða og tekið þátt í ýmsu íþrótta og menningartengdu frumkvöðlastarfi.

Ég fór á sérkennilegan fund fyrr í mánuðinum. Mér leið eins og að mamma og pabbi hefðu ákveðið að hóa okkur systkynin saman inn í stofu og rökstyðja skilnað sem þau hefðu tilkynnt skömmu áður. Þau höfðu ákveðið að taka vinsælu frænkuna með á fjölskyldufundinn til að flippa aðeins upp á stemninguna. Þau hefðu byrjað á að útskýra fyrir okkur hversu vel ígrunduð ákvörðunin væri, þau væru búin að ræða ítrekað við sýslumann og hugsa í þaula hvernig standa ætti að skilnaðinum. Við systkynin vissum að það væri búið að ganga brösulega hjá þeim síðastliðin tíu ár og því spurðum við sem eitt. Hvað gerðu þið til að láta hlutina ganga betur? Hvernig brugðust þið við? Hlúðuð þið að sambandinu á erfiðum tímum, leituðu þið aðstoðar einhverstaðar? Settuð þið vinnu, tíma og peninga til að gera hjónabandið betra? En svörin beindust að því hversu vel ákvörðunin hafi verið ígrunduð og vitnuðu þau í fleiri en einn fund með sýsló en þau gátu því miður ekki sagt að þau hefðu brugðist við erfiðleikunum á einn eða annan hátt og þannig rökstutt að hjónabandinu yrði ekki bjargað þrátt fyrir ítrekaðar björgunaraðgerðir.

En foreldrar mínir eru blessunarlega ekki að skilja enda var ég ekki inn í stofu heima heldur á fundi í húskynnum Háskóla Íslands á Laugarvatni. Þar sem rektor háskólans rökstuddi ígrundaða ákvörðun háskólans um að færa íþróttanám skólans til Reykjavíkur. Þuldir voru upp fundir þar sem ákvörðunin var rædd án þess að geta komið með dæmi um að ýmislegt hafi verið reynt til að forðast þessa sorglegu niðurstöðu. Það er því fremur ljóst fyrir mér að nú með lengingu kennaranámsins úr þremur árum í fimm ár hafi háskólinn loksins fundið smugu til að gera það sem staðið hefur til lengi. Að loka skólanum á Laugarvatni.

En ég gleymi alveg að segja ykkur frá skemmtilegu frænkunni. Hún var frá Ungmennafélagi Íslands. Mín upplifun var sú að það hafi verið ákveðið að koma með einhverja góða hugmynd á fundinn til að „friða“ íbúa Bláskógabyggðar en vitandi að hugmyndin var ekki nægilega góð tók háskólinn fulltrúa frá UMFÍ til að segja frá frábærri hugmynd sem ungmennafélagið hefur varðandi lýðháskóla á Laugarvatni. Það er kannski óhætt að segja að frænkan hafi bjargað fundinum frá þvi að hafa verið verulega hallærislegt fjölskyldumóment og hefði að mínu mati kannski betur mætt ein á fundinn.

Svekktust er ég þó út í sjálfa mig. Ég heyrði raddir um lokun skólans þegar ég gekk þar til náms fyrir um tíu árum síðan en ég tók þátt í því að taka þessar sögusagnir ekki alvarlega, en óska þess nú að ég hefði krafist svara á þeim tíma hvort háskólinn væri ekki örugglega að hlúa að starfinu á Laugarvatni með góðu viðhaldi og uppbyggingu og sporna þannig við þeirri þróun sem talin var steðja að.

Að lokum vill ég segja það að þrátt fyrir að hafa skrifað undir skilnaðarpappírana, þá má alltaf taka saman aftur ef það kemur í ljós að skilnaðurinn var ekki tímabær. Kannski er rétt að loka skólanum á Laugarvatni en fyrst er eðlilegt að skoða allar aðrar leiðir og ef ekki er hægt að sýna fram á aðgerðir sem voru til þess fallnar að styðja við nám á Laugarvatni er eðlilegt að endurskoða ákvörðunina.

Anna Greta Ólafsdóttir,
Skólastjóri og fyrrum nemi við Háskóla íslands á Laugarvatni og fyrrum íbúi Bláskógabyggða

Comments are closed.