Hrekkjavaka

Hrekkjavaka

halloween-959006_960_720Við Íslendingar eigum okkar grímubúningadag, Öskudaginn, en fleiri og fleiri taka þátt í Hrekkjavökudeginum 31. október eða Halloween sem útleggst reyndar líka sem All Hallows’ Eve.

Halloween er vakan fyrir Allraheilagramessu sem er tileinkuð píslarvottum kirkjunnar.

Á Vísindavefnum kemur fram að upphaflega hafi Allraheilagramessa verið haldin hátíðleg 1. maí hvers árs en árið 834 var dagsetning hennar færð yfir á 1. nóvember. Fyrst og fremst vegna þess að henni var ætlað að koma í staðinn fyrir ýmsar mikilvægar heiðnar hátíðir sem haldnar voru á sama tíma.

Hefð myndaðist fyrir því að á Hrekkjavöku væri brennandi kertum komið fyrir í útskornum næpum og á Írlandi og Skotlandi tíðkaðist að kveikja bálkesti. Einnig fóru bæði unglingar og fullorðnir á milli húsa klæddir búningum með grímur og gerðu öðrum gjarnan einhvern grikk í leiðinni.

Þegar Írar og Skotar fluttust búferlum til Ameríku á 19. öld fluttist Hrekkjavakan með þeim. Í Bandaríkjunum uxu aftur á móti grasker sem voru mun stærri en næpurnar og auðveldari að skera út. Þannig tóku graskerin við af næpunum sem tákn fyrir hrekkjavöku Bandaríkjamanna.

Mörg skemmtileg Hrekkjavökupartý voru haldin seinustu helgi, samhliða kosningunum, og sáu til dæmis áhorfendur kosningasjónvarpsins á RÚV blóðugar furðuverur fyrir utan gluggann á Kaffi París þegar viðtal var tekið við hljómsveitina Ylju. Það var hressandi og sást að mikið var lagt í að hafa búningana sem skelfilegasta.

Við Íslendingar höfum ekki tileinkað okkur þær hefðir að leyfa börnunum að fara út og sníkja sælgæti eða hrekkja fólk sem vill ekki gefa á Hrekkjavökudeginum. Aftur á móti er spurning hvort að sú hefð sé um það bil að komast á? Fréttavefur Suðurlands frétti af því að börnin í Hveragerði ætli að ganga á milli húsa í kvöld í búningum og biðja um gott eða gera grikk.

Þeir sem ná myndir af þeim furðuverum sem á milli húsa ganga í kvöld mega endilega senda Fréttavef Suðurlands myndir á netfangið frettir@sudurland.net.

 

Comments are closed.