Jæja!

Jæja!

jaejaVið Íslendingar erum með ýmis orð eða orðatiltæki sem vekja upp kátínu hjá útlendingum þegar þeir reyna að átta sig á merkingu þeirra. 

Merking orðsins jæja getur snúist mjög fyrir þeim sem ekki tala íslensku í ljósi þess að það er hvernig við segjum jæja sem skiptir höfuð máli varðandi merkinguna.

Þegar við erum að bíða eftir einhverjum segjum við það hvasst og merkir þá orðið; ertu ekki að koma, drífðu þig eða við erum að fara núna?

Þegar við klárum eitthvað og erum alveg hrikalega sátt við útkomuna eða að hafa loksins lokið verkinu þá notum við oft jæja sem merkir; þá er þetta loksins búið.

Þegar við lendum í vandræðum en vitum alveg að þetta muni reddast þá notum við orðið jæja sem merkir; við finnum út úr þessu eða við getum leyst þetta – þetta reddast!

Þegar einhver gengur gjörsamlega fram af okkur þá ranghvolfum við augunum og notum orðið jæja sem merkir; þú ert skrítinn eða þetta er furðulegt.

Þegar við verðum vonsvikin t.d. með niðurstöðu úr prófi þá segjum við með trega í röddinni jæja sem merkir; leiðinlegt að þetta fór svona en ég verð að sætta mig við það.

Þegar við hittum félaga okkar og langar að forvitnast hvað er að frétta hjá viðkomandi þá notum við oft jæja sem merkir; hvað er að frétta af þér gamli vinur eða bara hvað er að frétta?

Það er örugglega hægt að finna fleiri merkingar fyrir orðið jæja enda mikið notað í íslensku máli. Á myndinni hér að ofan, sem gengur nú ljósum logum um samfélagsmiðlana, sjást útskýringar fyrir útlendinga til þess að skilja 13 mismunandi merkingar orðsins jæja.

Comments are closed.