Kveðjubréf til Krabba

Kveðjubréf til Krabba

Í tilefni dagsins, 4.febrúar sem er alþjóðlegur dagur gegn krabbameini.

Svanhildur

Svanhildur Inga Ólafsdóttir

Kveðjubréf til Krabbans

Þú ljóti leiði Krabbi. Var að hugsa til þín í dag þegar ég keyrði yfir Hellisheiði í skítaveðri, nýbúin í fyrstu geislunum… að ég væri svo löngu búin að sigra þig og þessa baráttu sem þú skoraðir á mig fyrir mörgum mánuðum.

Þú komst inn í líf mitt í júní 2015, svo innilega óboðinn og óvelkominn. Hafðir hjúfrað um þig í felum í öðru brjóstinu mínu, lást þar í makindum þínum og stækkaðir hratt. Það kom að því að ég fyndi þig bansettur, enda orðinn ansi stór og pattaralegur og erfitt fyrir þig að felast mikið lengur.

Ég fékk að sjá þig eftir að læknirinn hafði fjarlægt þig úr skotinu þínu. Mikið varstu forljótur, úfinn og tættur!

Þarna á þessum tímapunkti hafðir þú náð á mig höggi. Ég hafði ekki gert ráð fyrir þér í líf mitt og þú settir mig í ansi óþæginlega stöðu. Náðir að hrófla við mér tilfinningalega, ógna öryggi fjölskyldu minnar og hræða bæði okkur hjónin og öll börnin okkar. Varnamúrinn hrundi í augnablik og ég grét mikið og oft, mér fannst þú stilla mér upp við vegg og ógna lífi mínu.

Miðengis gengið

Hjónin Ölver Jónsson og Svanhildur Inga Ólafsdóttir ásamt börnunum fimm

En þegar þú „valdir“ þér að setjast að í mínum líkama, reyna að fella mig þá vissir þú líklega ekki að ég hef ansi mikið keppnisskap! Eftir þínar óvæntu skyndisóknir setti ég allt í lok og læs fyrir þér og hef verið í stanslausri sókn síðan.

Þú ert dauður, …farinn, …horfinn. Þú tilheyrir fortíðinni og ég geri ekki ráð fyrir þér í framtíðinni.

Lyfja- og geislameðferðin er krókur á móti bragði. Leið til að drepa niður alla mögulega afleggjara frá þér og eyða þér endanlega.

Sættu þig við það, þú tapaðir! Ég stend upprétt, stolt, reynslunni ríkari, þroskaðri og sterkari en áður. Og ef þér dettur sú vitleysa í hug einhvertíma aftur á minni lífsleið, að skora á mig í baráttu á ný, máttu trúa því að þér verður tekið mjög illa, boðinn hjartanlega óvelkominn og þú munt mæta ofjarli þínum.

Því ég er sigurvegarinn!

Svanhildur Inga Ólafsdóttir

3 Comments

 1. ololcont@yahoo.com says:

  Viðhorf sigurvegarans. Hreinlega mögnuð manneskja.

 2. ololcont@yahoo.com says:

  Ég er búinn að fara yfir allar mögulegar leiðir til að finna orð yfir þig elsku stóra stelpan mín. En þú ert svo langt fyrir ofan allt sem hægt er að koma orðum að.
  Ég held ég sendi þér þetta ljóð sem samið var til þín á fyrstu vikum æfi þinnar:
  Öllum öðrum berð þú af
  hér í þessum heimi.
  Þú litla barn sem guð mér fag
  við brjóst mér ég þig geymi.
  Yfir okkur vættir vaka
  allar góðar sofðu rótt.
  Engill trúr þér eftir lítur
  meðan stormur kaldur bítur
  og dimma skóga í gegnum þýtur
  vægðarlaust um dimma nótt.
  Þú gleði vekur í hvers manns hjarta,
  gæfan ein, ó fygli þér.
  blíð og fögur með bros þitt bjarta
  með blóm og gleði muntu skarta
  alla tíð í huga mér.

 3. Þú ert frábær Svanhildur..