Páll Þór Engilbjartsson.

Páll Þór Engilbjartsson.

Leiðin út á þjóðveginn

Páll Þór Engilbjartsson.

Páll Þór Engilbjartsson.

Páll Þór Engilbjartsson er einn af stofnendum félagsins Leiðin út á þjóðveginn sem er ætlað að bæta geðheilbrigði íbúa í Hveragerði með fræðslu um geðsjúkdóma og opinni umræðu um geðræn vandamál.

Félagið heldur fundi einu sinni í viku, á fimmtudögum kl. 20:30, í salnum á 2. hæð í húsnæði Rauða krossins í Hveragerði að Austurmörk 7. Fundirnir eru opnir öllum þeim sem glíma við geðræn vandamál líkt og þunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun eða aðra andlega sjúkdóma.

Á fundunum er opin umræða um andlega líðan og fólk getur skipst á reynslusögum og lausnum. Mikilvægast á þessum fundum er að öll umræða fer fram í trúnaði, það sem fer fram á fundunum fer ekki lengra.

Nú þegar hafa nokkrir fundir verið haldnir og eru það um 30 manns í heildina sem hafa sótt þá, allt frá fjórum upp í 15 manns í einu. Vonir standa til að enn fleiri komi á fundina en vitað er að erfitt er að stíga skrefið og mæta. Páll og aðrir aðstandendur félagsins hafa því brugðið á það ráð að fá þekkta einstaklinga, sem glíma við andleg veikindi af einhverjum toga eða þekkja þennan reynsluheim sem aðstandendur, að koma og ræða opinskátt um sín vandamál. Það hjálpar fólki við að stíga út fyrir þægindaramma sinn og mæta. Hugmyndin er að slíkar heimsóknir verði einu sinni í mánuði.

Einnig er fyrirhugað að félagið verði með auka fundi þar sem tekið er á sérstöku málefni hverju sinni, t.d. fyrirlestrar frá sérfræðingum um einhver sérhæfð málefni er tengjast andlegri líðan. Nú þegar hefur verið ákveðið að halda ráðstefnu í samvinnu við Hveragerðisbæ, Rauða krossinn og Hugarafl í Skyrgerðinni þann 2. desember næstkomandi. Hún verður opin öllum og verða þar fyrirlestrar sérfræðinga og pallborðsumræður um geðheilbrigðismál. Undirbúningur ráðstefnunnar er í fullum gangi og verður auglýst vel þegar nær dregur.

Páll vill ganga enn lengra með félagið og hugmyndin er að búa til litla hópa sem geta hjálpast að, svokallaður félagastuðningur. Páll tekur sem dæmi að einstaklingur með mikinn kvíða getur miklað fyrir sér hluti sem öðrum þykir ekkert mál, t.d. að fara út með ruslið og eiga það á hættu að rekast á einhvern á leiðinni eða einhver sem á bókaðan tíma í bænum hjá sérfræðing en guggnar á því að mæta vegna kvíða. Félagastuðningur gæti hjálpað mikið í þess konar aðstæðum. Hann tók gott dæmi um fólk sem átti erfitt með að vera í kringum aðra, þ.e. kona og maður sem bæði áttu erfitt með að fara út með rusl því það kveið svo fyrir að rekast á annað fólk á leiðinni.

Þau ákváðu að reyna að vinna á kvíðanum með því að fara út að ganga á morgnana áður en fólk var á ferli, þ.e. áður en allt áreiti hefst. Fyrst fóru þau í göngutúr klukkan 6:00, svo klukkan 6:15, svo 6:30 og svo koll af kolli. Alltaf sömu leið en aðeins seinna á hverjum morgni. Það var því alltaf lítil breyting í hvert skipti en frá fyrsta skiptinu yfir í það seinasta var áreitið í umhverfinu allt annað; götusóparar við vinnu, börn á leið í skóla og fólk í vinnu o.s.frv. Þau náðu að vinna sig í gegnum þennan ótta með litlum skrefum. Þetta fólk þekkist ekkert og býr meiri að segja í sitthvoru landinu, það kom því Páli á óvart að það tók á sínum vanda með nákvæmlega sama hætti. Það kveikti hjá honum hugmynd um að auðvitað á fólk að deila sinni reynslu og lausnum á vandamálum með öðrum.

Páll segir að það sé einmitt hugmynd félagsins, að hjálpa fólki á sínum hraða með félagastuðningi, trúnaði og fullum skilningi á aðstæðum hvers og eins. Það eru margir sem eiga við samskonar vandamál en upplifa sig vera eina í heiminum. Það þarf enginn að vera einn.

Aðspurður að því af hverju hann ákvað að stofna félagið sagði Páll „dóttir mín fékk taugaáfall fyrir 22 mánuðum og að reyna að fá aðstoð í kerfinu fyrir barnið sitt er eins og í myndinni Groundhog day, þ.e. maður er alltaf sendur aftur á byrjunarreit og þarf að taka fyrsta viðtalið aftur og aftur. Lausnirnar eru ekki í sjónmáli og biðlistar eftir aðstoð langir. Lyfjanotkun finnst mér of mikil og alltaf er verið að prófa ný og ný lyf til þess að sjá hvað virkar. Það vantar varanlegri lausnir.

Mér fannst einnig vanta aðstoð fyrir einstaklinga í vanda hér í Hveragerði og almennt á Suðurlandi. Tölfræðin segir að 1 af hverjum tíu glími við geðræn vandamál, það þýðir um 200 manns í Hveragerði. Við vitum að þörfin er til staðar og því nauðsynlegt að gera eitthvað í málunum. Í raun var ég bjargalaus faðir sem var að reyna að finna lausnir fyrir dóttur mína sem endaði í því að ég ásamt góðu fólki ákvað að stofna þetta félag.“

Við undirbúning að stofnun félagsins var talað við fjölda einstaklinga, félaga og stofnana eins og Hveragerðisbæ, Heilsustofnun Hveragerðis og Hugarafl svo einhver nöfn séu nefnd. Allir þessir aðilar tóku vel í að koma að starfi félagsins þegar það færi af stað og sannaði það að það sé raunveruleg þörf á slíku félagi í Hveragerði. Páll segir það brýnt að þeir sem eiga við geðræn vandamál að glíma, eða aðstandendur þeirra, taki þátt í því sem félagið hefur upp á að bjóða strax í upphafi svo að stuðningur í margvíslegu formi verði tryggður frá fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum.

Þeir aðilar sem nú þegar hafa stutt við bakið á félaginu eru Hveragerðisbær með fjárstyrk, Rauði krossinn með húsnæði og Almar bakari með meðlæti á fundunum.

Nánari upplýsingar um félagið má finna á Facebook síðunni Út á þjóðveginn. Einnig er lokuð Facebook síða þar sem fólk getur tjáð sig opinskátt um sín vandamál sem heitir Leiðin út á þjóðveginn.

 

 

 

One Comment

  1. mnMeaMjög góð grein og þarft framtak, takk fyrir að deila þessu 🙂