Matar- og söngveisla hjá Rauða krossinum í Hveragerði og Árnessýslu

Matar- og söngveisla hjá Rauða krossinum í Hveragerði og Árnessýslu

Heljarinnar matar- og söngveisla var haldin í húsnæði Rauða krossins í Hveragerði á laugardaginn var. Sjálfboðaliðar flóttamannaverkefna Rauða krossins í Hveragerði og Árnessýslu mættu ásamt fjölskyldum sínum til að gera sér glaðan dag með sýrlensku fjölskyldunum tveimur sem búsettar eru í Hveragerði og á Selfossi. Allir komu með rétt á sameiginlegt hlaðborð og var úrvalið bæði fjölbreytt og glæsilegt.

Á myndinni er lítil sýrlensk stúlka að segja að bangsinn sem hún er með heiti það sama og sjálfboðaliði Rauða krossins. Myndataka: Estelle Burgel

Erlendur Eiríksson, leikari, söng nokkur lög við mikinn fögnuð áheyrenda og hvatti svo gesti til þess að taka lagið. Úr varð hin mesta tónlistarveisla þar sem þrír elstu sýrlensku drengirnir stigu á stokk og kom í ljós að þarna eru hörku söngvarar á ferð. Yngstu börnin sungu einnig nokkur lög og vert er að taka fram að ein sýrlensk fjögurra ára stúlka söng á íslensku lag sem hún hafði lært í leikskólanum. Rauða kross fólkið sammæltist um það að engin yrði hissa ef fagnaðarlætin hefðu fundist á jarðskjálftamælum Veðurstofu Íslands.

Rúmir tveir mánuðir eru síðan sýrlensku flóttamanna fjölskyldurnar komu til landsins en áður var fólkið í Líbanon í fjögur ár eftir að hafa flúið átökin í heimalandi sínu. Fjölskyldurnar eru stórar og eru börnin samtals tíu á aldrinum 4-20 ára. Rauði krossinn og sveitarfélögin tvö unnu vel saman við að gera komu þeirra til landsins eins góða og kostur var á, vitandi að líf þeirra hefur ekki verið dans á rósum síðan stríðið í Sýrlandi hófst. Nú hafa þau komið sér vel fyrir, börnin standa sig eins og hetjur í leik- og grunnskólunum og foreldrarnir ásamt elstu börnunum á fullu að læra íslensku. Það er með ólíkundum hversu mikið þau ódýr almenn evitra á netinu hafa lært á stuttum tíma enda leggja þau mikinn metnað í að koma sér inn í málið. Þau eru einnig dugleg að kenna Rauða kross fólkinu orð á arabísku en ekki gengur okkur Íslendingunum eins vel að muna orðin fínu. Það hlýtur þó að koma.

Kjarnakonur allar þrjár sem hittu svo sannarlega í mark með þeim réttum sem þær lögðu á hlaðborðið. Myndataka: Fjóla Einarsdóttir

Fjölskyldurnar hafa tekið þátt í hinum ýmsu viðburðum og sótt höfuðborgina heim ásamt því að skoða sveitirnar á Suðurlandi. Gaman er að segja frá því að húsmóðirin á Selfossi, sem er mikil kjarnakona, hélt fyrirlestur í Fjölheimum á Selfossi þann 9. mars sl. um Sýrland og sýrlenska matargerð. Lagði hún mikla áherslu á að sýna og segja gestum frá hvernig Sýrland var fyrir stríðið og þann mikla menningararf sem landið geymir. Hún tók einnig þátt í margmála ljóðakvöldi á Listasafni Árnessinga og flutti þar ljóð á arabísku með miklum tilþrifum.

Sjálboðaliðar Rauða krossins hafa staðið sig vel í undirbúningi og við móttöku Sýrlendinganna, félagslegur stuðningur þeirra við fjölskyldurnar nú er einnig ómetanlegur og vináttusambönd hafa strax myndast. Íbúar Hveragerðis og Árborgar ásamt fyrirtækjum í sveitarfélögunum hafa stutt dyggilega við Rauða krossinn og aðstoðað þar sem þörfin er hverju sinni. Það er því vel við hæfi að ljúka þessari grein með þökkum til þeirra sem lagt hafa fram krafta sína og aðstoð við að taka vel á móti sýrlensku vinum okkar:

 • Álnavörubúðin í Hveragerði fær þakkir fyrir fötin sem þau gáfu.
 • Skor.is fá þakkir fyrir að gefa öllum fjölskyldumeðlimum nýja skó sem henta íslenskum aðstæðum.
 • Vodafone fyrir net- og símaáskrift í heilt ár ásamt símtækjum handa hverri fjölskyldu.
 • Lions klúbbur Hveragerðis fyrir að kaupa bílstóla handa öllum börnum sem það þurftu.
 • Kjörís fyrir að lána bæði bíl og bílstjóra þegar sækja þurfti ansi mörg rúm til Reykjavíkur og einnig fyrir að lána bíl þegar flutt var inn í húsnæðið í Hveragerði.
 • Flytjandi fyrir að lána bíl fyrir flutningana á Selfossi.
 • Nytjamarkaðurinn á Selfossi fyrir að opna sínar dyr upp á gátt og leyfa starfsmönnum Rauða krossins að ná í húsgögn, búsáhöld og aðra hluti sem vantaði fyrir fjölskyldurnar án endurgjalds.
 • Fosstún íbúðahótel fyrir lán á sal og bíl.
 • MS fyrir veitingar eftir fatamarkað.
 • Ölgerðin fyrir góðar gjafir til fjölskyldnanna.
 • Almar bakari fyrir bakkelsið handa sjálfboðaliðum.
 • Hjólabær á Selfossi fyrir alla aðstoðina við viðgerðirnar á hjólunum sem börnin fengu.
 • Byko á Selfossi fyrir góðar gjafir og þjónustu.
 • Íbúar samfélagsins fá þakkir, bæði í Hveragerði og í Árborg, fyrir öll húsgögnin sem þau létu af hendi ásamt fötum, leikföngum og öðru sem Rauði krossinn óskaði eftir.
 • Rauði krossinn vill einnig þakka starfsmönnum Árborgar og Hveragerðis fyrir mjög gott og ánægjulegt samstarf.
 • …og að lokum viljum við sérstaklega þakka sjálfboðaliðum Rauða krossins í Hveragerði og Árnessýslu fyrir að standa saman og vinna sem einn maður í öllum undirbúningnum.

Höfundur: Fjóla Einarsdóttir

Verkefnisstjóri flóttamannaverkefna Rauða krossins í Hveragerði og í Árnessýslu

Comments are closed.