Mikilvægt að nýta kosningaréttinn

Mikilvægt að nýta kosningaréttinn

Kjörstaðir eru opnir til 22:00 í kvöld.

Kjörstaðir eru opnir til 22:00 í kvöld.

Nú er rétt um klukkutími þar til kjörstaðir loka, þeir sem eiga eftir að kjósa verða því að drífa sig af stað og nýta þennan mikilvæg rétt sinn.

1302 frambjóðendur í 12 flokkum óska eftir umboði okkar til þess að fá sæti á Alþingi. Sætin eru þó aðeins 63 svo það er eins gott að við veljum vel. Á kjörskrá eru 246.515 manns og að sjálfsögðu skiptir hvert einasta atkvæði máli. Kjörsókn er betri núna en á sama tíma 2013 og auðvitað eru það góðar fréttir en hafa verður þó í huga að þá var kjörsókn sú lakasta á lýðveldistímanum.

Það verður spennandi að sjá þegar kjörstaðir loka hversu margir sáu sér fært að kjósa, sumir láta ekkert stöðva sig líkt og Hákon Kjalar Hjördísarson sem býr ásamt hundinum Skugga á eyjunni Traustholtshólma.

Eyjan er rétt fyrir ofan mynni Þjórsár og þarf hann að hafa töluvert fyrir því að kjósa en hann skilaði sínu atkvæði. Í samtali við visir.is sagði hann „[þ]að eru forréttindi að búa í lýðræðisríki og alveg sama hvað menn kjósa, þá eiga þeir að nýta réttinn sinn. Þetta er einn dagur á fjögurra ára fresti. Ef menn geta ekki staðið upp og kosið þá þýðir lítið að vera að kvarta yfir ástandinu.“

Brúðhjónin Halla Dröfn Jóns­dótt­ir og Hauk­ur Þor­valds­son létu heldur ekkert stöðva sig og kusu á Selfossi í dag eftir að hafa verið gefin saman. Prúðbúin og fín skut­ust þau á kjörstað á milli at­hafn­ar­inn­ar í Sel­foss­kirkju og veisl­unn­ar, vel gert hjá þeim.

Að hafa rétt til þess að kjósa er ekki sjálfsagt og því ber að virða hann. Það eru ekki nema rúm 100 ár síðan konur og karlar fengu almennan kosningarétt á Íslandi óháð öðru en aldri, konur og vinnumenn 40 ára og eldri máttu þá einnig kjósa. Fyrir þann tíma máttu konur og eignalausir menn ekki kjósa. Fullu jafnrétti allra skilgreindra fullorðinna þegna hvað varðar kosningarétt var þó ekki náð fyrr en 1984. Það ár var kosningaaldur færður niður í 18 ár og felld voru niður ákvæði um missi kosningaréttar vegna lögræðissviptingar eða flekkaðs mannorðs. Það er ekki lengra síðan.

Í tilefni dagsins er hér að neðan ágrip af sögu kosningaréttar okkar Íslendinga sem Vísindavefurinn tók saman: 

„Íslendingar fengu fyrst kosningarétt með tilskipun sem Kristján VIII. Danakonungur gaf út árið 1843. Kosningarétturinn 1843 náði aðeins til karlmanna sem áttu jörð að minnsta kosti 10 hundraða dýrleika, eins og það var orðað, ellegar áttu múr- eða timburhús í verslunarplássi, sem metið var til 1000 ríkisdalavirðis hið minnsta. Kjósendur skyldu hafa náð 25 ára aldri. Ekki er vitað hversu margir þeir voru, en talið er að einungis um 2 prósent íbúa landsins hafi haft kosningarétt í fyrstu kosningunum og af þeim neyttu fáir réttar síns, eða einungis um 20 prósent.

Árið 1857 var kosningarréttur rýmkaður mikið og fengu þá flestir fullorðnir karlmenn kosningarrétt sem bjuggu á eigin heimili, borguðu skatta, áttu eignir eða höfðu lokið háskólaprófi. Þá náði kosningarétturinn til um 10 prósenta landsmanna, og um 42 prósenta karlmanna, 25 ára og eldri.

1903 var kosningaréttur rýmkaður mjög og náði þá til um 65 prósenta karlmanna 25 ára og eldri. Þeir karlmenn, 25 ára og eldri, sem ekki höfðu kosningarétt voru vinnumenn, menn sem gátu ekki greitt 4 kr. í útsvar, menn sem stóðu í skuld vegna sveitarstyrks og ólögráða menn. Árið 1915 fengu vinnumenn, 40 ára og eldri kosningarétt og afnumin var krafa um útsvarsgreiðslu. Í kosningunum í október 1916 höfðu um 84% karlmanna 25 ára og eldri fengið kosningarétt.

Krafan um kosningarétt kvenna til Alþings var sennilega fyrst orðuð opinberlega árið 1885 á þingmálafundi Suður-Þingeyinga. Hið íslenska kvenfélag sem stofnað var 1894 tók kosningarétt á stefnuskrána og safnaði 2.348 undirskriftum kvenna um allt land árið 1895 undir áskorun til Alþingis um að samþykkja kosningarétt kvenna. Þegar Kvenréttindafélag Íslands var stofnað 1907 varð krafan um kosningarétt kvenna mjög áberandi og hávær.

Á Alþingi voru kosningaréttur kvenna og kjörgengi oft til umræðu og þar heyrðust raddir sem mæltu gegn þessum rétti. Marga þingmenn óaði við því að auka kosningaréttinn mikið í einu til fólks sem hefði ekki náð jafn miklum þroska og þeir sem kosningarétt höfðu. Einn þingmanna, Jón Jónsson á Hvanná, varaði beinlínis við því að konur fengju kosningarétt allar í einu: „En að sleppa þessum réttindum við þær strax og allt í einu yrði bylting í svip.“

Alþingi samþykkti haustið 1913 og staðfesti 1914 stjórnarskrárbreytingu sem fól í sér að konur og vinnumenn, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt til Alþingis. Aldurstakmarkið átti að minnka um eitt ár á ári þar til 25 ára takmarkinu yrði náð. Þannig fóru lögin til Kristjáns konungs X. sem staðfesti þau með undirskrift sinni þann 19. júní 1915. Aldursákvæðið var séríslenskt ákvæði; engin önnur þjóð í heiminum hefur haft viðlíka í kosningalögum. Reykvískar konur fögnuðu engu að síður með miklum hátíðahöldum á Austurvelli. Kosið var eftir nýju lögunum árið 1916. Þá bættust í kjósendahópinn 12.050 konur. Höfðu þá um 52 prósent kvenna 25 ára og eldri kosningarétt.

Árið 1918 gerðu Íslendingar og Danir með sér svokallaðan Sambandslagasamning. Í honum voru ákvæði um gagnkvæman ríkisborgararétt. Því setti Alþingi lög árið 1920 sem færðu öllum 25 ára og eldri kosningarétt, óháð kyni og atvinnu. Þá voru konur og vinnumenn orðin jafnrétthá karlmönnum. Ákvæðið um að svipta fólk kosningarétti vegna þegins sveitarstyrks var afnumið árið 1934 og aldursákvæðið einnig lækkað í 21 ár. Þá munu um 60 prósent þjóðarinnar hafa haft kosningarétt, og kosningaþátttakan var komin upp í um 80 prósent.

Kosningaaldurinn var lækkaður í 20 ár 1968. Árið 1984 var kosningaaldur færður í 18 ár. Jafnframt voru felld niður ákvæði um missi kosningaréttar vegna lögræðissviptingar eða flekkaðs mannorðs. Fullu jafnrétti allra skilgreindra fullorðinna þegna hvað varðar kosningarétt var ekki náð fyrr en 1984, eins og sést á því sem hér hefur verið rakið.“

 

 

Comments are closed.