Nýtum berin í garðinum

Nýtum berin í garðinum

Rifsber

Rifsber

Nú fer hver að verða síðastur að tína rifs- og sólber af berjarunnunum í garðinum sínum áður en næturfrostið skemmir uppskeruna. Berin þola örlítið næturfrost en auðvitað á ekki að taka áhættu á að missa af því að geta gert sína eigin sultu, hlaup eða saft úr hráefnum sem vaxa í garðinum. Margir tína þau um miðjan ágúst áður en þau verða alveg fullþroska því grænjaxlarnir gefa hleypiefni.

Greinar með rifsberjum eru einnig einstaklega fallegar sem skraut og kjörið að frysta nokkrar greinar og nota til skreytinga með hátíðarmat um jólin. Hér að neðan eru tvær góðar uppskriftir af rifsberjahlaupi og ein af sólberjasultu frá Leiðbeiningarmiðstöð heimilanna og Kvennablaðinu. Nýtum berin í garðinum og njótum.

 

Rifsberjahlaup með sykri
2 kg rifsber (stilkar og smávegis af laufblöðum með)
1 1/2 kg strásykur

Leiðbeiningar: Rifsber, greinar og lauf sett í pott ásamt sykrinum. Suðan látin koma upp og soðið við vægan hita í 10 mínútur. Tekið af hellunni og aðeins látið kólna. Sett aftur á suðu og nú soðið í 5 mínútur, þetta á að gera alls þrisvar sinnum. Hellt í gegnum sigti og aðeins marið með ausu eða sleif. Saftin sett aftur í pott og nú er suðan látin koma upp og látið sjóða í 1 mínútu. Froðan veidd ofan af. Hellt í litlar krukkur eða hlaupglös. Bökunarpappír eða viskustykki breitt yfir og látið kólna. Lokað vel og merkt með dagsetningu og innihaldi. Setja má hring af smjörpappír ofan á hlaupið, ef vill.

Rifsberjahlaup án sykurs
1 dl vatn
10 dropar stevía án bragðs
5 msk sukrin melis
2 stk matarlímsblöð

Leiðbeiningar: Ber og vatn sett í pott og látið malla á miðlungshita í 20-30 mínútur. Hellið yfir í sigti og kremjið berin í gegnum sigtið. Setjið berjasaftina aftur í pottinn og hitið með sukrin melis og stevíu. Bætið við matarlímsblöðunum og hrærið vel í. Þegar matarlímið er vel blandað saman við setjið þá hlaupið í krukku og geymið í kæli.

Sólber

Sólber

Sólberjasulta
1 kg sólber
1 kg strásykur
1 dl romm eða sherry
Rautt Melatín miðað við magn af sultu samkvæmt leiðbeiningum á poka

Leiðbeiningar: Ber og sykur settt í pott og suðan látin koma upp. Látið malla á vægum hita þangað til fer að þykkna. Víni bætt út í. Melatín sett í samkvæmt leiðbeiningum og hrært vel, látið aðeins rjúka og sett í hreinar krukkur og lokað strax.

Þeir sem vilja ekki nýta berin í sultur geta fryst þau, geymsluþol berja er um ár í frosti. Á Leiðbeiningastöð heimilanna eru góð ráð um hvernig eigi að meðhöndla berin áður en þau eru fryst.

  • Frysta í sykurlegi, þurrsykruð eða maukuð. Í góðu lagi er að frysta flest ber í hæfilegum skömmtum án sykurs. Hreinan berjasafa er tilvalið að frysta í litlum skömmtum og nota eftir hendinni.
  • Í sykurlegi: Þá er soðinn lögur úr 5-7 dl. af strásykri á móti liter af vatni. Hann kældur og er notað 5-6 dl. af legi á hvert kilo af berjum. Hafa skal um 2. cm borð á ílátinu því lögurinn þenst út við frystingu.
  • Þurrsykruð: Þá er blandað 2-3 dl. af strásykri saman við hvert kilo af heilum berjum. Sett í plastpoka og fryst. Það má líka mauka berin og bæta sykri út í. Ágæt hlutföll eru 2-3 dl sykur á móti kílói af berjum. Ekkert að því að blanda saman t.d. bláberjum og rifsberjum.
  • Krækiber og rifsber má frysta án sykurs.

Comments are closed.