Raungreinar út fyrir kærleika og frið

Raungreinar út fyrir kærleika og frið

Kvistur hússins er friðaður

Kvistur hússins er friðaður

Það ríkir sérstakur og fallegur andi í byggingu Héraðsskólans á Laugarvatni en það var snemma árið 2013 sem þeir félagar Sverrir Steinn Sverrisson og Sveinn Jakob Pálsson fengu þá hugmynd að opna hostel í einni sögufrægustu byggingu landsins.
Héraðsskólinn Hostel á Laugarvatni var opnað formlega verslunarmannahelgina árið 2013. Þessi fallega bygging sem stóð tóm í tæp 17 ár hefur fengið nýtt hlutverk og hýsir nú um þúsundir ferðamenn á ári hverju. Héraðsskólinn var hannaður af Guðjóni Samúelssyni, byggingarmeistara ríkisins en húsið var friðað að utan ásamt kvisti hússins árið 2003 og má með sanni segja að sé ein af perlum okkar Íslendinga.

Skólinn var stofnaður 1. Nóvember 1928 og var heimili margra ungra Íslendinga og kennara allt til ársins 1996.

Sverrir og Sveinn hafa verið vinir í mörg ár en bakgrunnur þeirra er jú ólíkur.

„Við kynntumst í verkfræði í Danmörku fyrir 15 árum síðan. Við erum gallharðir Liverpool aðdáendur og góðir strákar í grunninn. Sveinn er því miður KR-ingur en ég er sem betur fer HK-ingur úr Kópavoginum.“ Segir Sverrir Steinn, framkvæmdastjóri Héraðsskólans.“

Sverrir Steinn í borðsalnum í Héraðsskólanum

Sverrir Steinn í borðsalnum í Héraðsskólanum

Sverrir og Sveinn hittust svo aftur á Íslandi eftir nokkurra ára viðskilnað þar sem Sveinn hafði starfað á fjármálasviðinu í Bandaríkjunum og Sverrir í hringiðu lífsins í Danmörku.

„Við stofnuðum hugbúnaðarfyrirtæki saman þar sem áhersla var lögð á lausnir fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi. Til þess að tengja betur við þarfir ferðaþjónustunnar ákváðum við að setja upp gistiheimili til að finna nákvæmlega hvað það var sem þurfti til að smíða hið fullkomna sölukerfi fyrir afþreyingu, gistingu og bílaleigu á Íslandi. Þetta var hugmyndin í upphafi. „

Hvernig kom það til að þið félagar ákváðuð að hrinda hugmynd ykkar af stað að opna hostel í gamla Héraðsskólanum?

„Við fréttum að gamli Héraðsskólinn hafi staðið auður í mörg ár og þar væri brýn þörf á að koma inn einhvers konar starfsemi sem fyrst. Við lögðumst í undirbúningsvinnu og eitt leiddi af öðru og áður en við vissum af vorum við búnir að leggja tölvum til hliðar og komnir á fullt með hamra og sagir í samvinnu við gott fólk og farnir í stórfelldar breytingar á innviðum Héraðsskólans til þess að breyta honum í hostel. Á hostelum ægir saman öllum samfélagshópum og þar er enginn greinarmunur gerður á fólki eins og var í gamla Héraðsskólanum.“

Gamli Héraðsskólinn

Gamli Héraðsskólinn

Hver er hugmyndafræðin á bakvið hönnun hostelsins að innan?

„Hugmyndafræðin á bak við Héraðsskólann sem Héraðsskólinn hostel kemur frá Marey-arkitektum frá Selfossi. Það var alveg glórulaust að fara af stað með gamla Héraðsskólann nema þá að leyfa gamla Héraðsskólanum að koma aftur í nýjum búningi sem hostel. Það var nefninlega þannig að þegar við tókum við húsinu var lítið sem minnti á gamla tímann og því stórt og mikið verkefni framundan við að glæða þessa stórkostlegu byggingu lífi ( gömlu lífi ) á nýjan leik. Það voru í raun Eyrún og María frá Marey arkitektum sem leiddu okkur inn í sannleikann um mikilvægi sögu skólans og hversu skemmtilegt það væri að koma henni á framfæri til framtíðargesta hússins. „

Setustofan hýsir marga fallega muni

Setustofan hýsir marga fallega muni

Aðspurður um alla fallegu og gömlu munina sem fylla húsið af sál segir Sverrir að allir þeir gömlu munir sem er að finna í Héraðsskólanum í dag voru annað hvort keyptir á nytjamörkuðum landsins, komu inn sem gjafir frá gömlum nemum/kennurum eða voru til staðar í gömlu fjárhúsi sem góðir menn höfðu gætur á.

„Við fengum mikla og góða hjálp frá Menntaskólanum á Laugarvatni (Pálma og Halldóri Páli) við að koma þessu stóra verkefni af stað.“

Hvað hefur Héraðsskólinn upp á að bjóða í dag og hvers konar fólk kemur til ykkar?

Eitt af sérherbergjunum sem er í boði

Eitt af sérherbergjunum sem er í boði

„Í dag er Héraðsskólinn svokallað „Boutique hostel“ þannig að þar er að finna allar tegundir gistimöguleika undir sama þakinu. Við erum með tveggja manna herbergi með sameiginlegum baðherbergjum og sérbaðherbergjum (svokölluð double deluxe). Við erum einnig með fjölskylduherbergi fyrir 4-7 manns og einnig hópherbergi (dorm) fyrir 12-14 manns.
Við bjóðum upp á mat allan ársins hring (morgunmat, hádegismat og kvöldmat) úr eldhúsinu okkar.
Við höldum brúðkaup, veislur og mikið af andlegum upplyftingum á borð við yoga helgar og hugleiðslunámskeið. Hingað koma allar tegundir af fallegu og góðu fólki frá öllum heimshornum. Ungt fólk, gamalt fólk og allt þar á milli.“

Stíllinn er í anda hins gamla tíma

Stíllinn er í anda hins gamla tíma

Hvernig lítur framtíðin út hjá Héraðsskólanum á Laugarvatni?
„Framtíðin er björt hjá okkur eins og öllum heiminum. Það skiptir höfuð máli að ganga inn í hvern dag með bros á vör og vera tilbúinn að hjálpa þeim sem á hjálp þurfa að halda – þannig tökum við á móti fólki hérna í Héraðsskólanum og komum til með að gera eins lengi og heimurinn telur þörf vera á okkur.
Við viljum meina að gamli Héraðsskólinn á Laugarvatni sé enn starfræktur sem skóli nema hvað núna sé búið að taka út raungreinar fyrir kærleika og frið.“ Segir Sverrir Steinn að lokum.

Við þökkum Sverri Steini kærlega fyrir skemmtilegt og fræðandi viðtal um eina fallegustu byggingu landsins.

Héró sumar

Comments are closed.