Senn bryddir á Barða?

Senn bryddir á Barða?

Jarðskjálftahrina í Mýrdalsjökli 29. ágúst 2016.

Jarðskjálftahrina í Mýrdalsjökli 29. ágúst 2016, mynd er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að skjálftahrina hafi byrjað norðarlega í Kötluöskju í nótt. Tveir skjálftar mældust yfir fjórum stigum, sá fyrri kl. 01:47:02 var M4,5 og sá seinni 20 sekúndum síðar M4,6. Fáeinir skjálftar voru um þrjú stig. Á annan tug skjálfta mældust í kjölfarið. Enginn eldgosa- eða hlaupórói var sjáanlegur samfara þessum skjálftum. Stærstu skjálftarnir fundust í skálanum í Langadal. Nokkrir skjálftar urðu sunnar í öskjunni um klukkustund fyrr. Veðurstofa Íslands mun fylgjast náið með framvindu mála.

Talið er að Katla hafi gosið um 20 sinnum síðan land byggðist eða að meðaltali tvisvar á öld. Katla gaus seinast þann 12. október 1918 og lauk því gosi 4. nóvember sama ár, gjóskan frá Kötlugosinu 1918 dreifðist yfir meira en 60.000 km2 eða um helming landsins. Nú er liðin tæp öld frá því gosi og er það því með lengstu goshléum í Kötlu ef miðað er við undanfarin gos. Á vef almannavarna er að finna fræðslumynd um Kötlu og Kötluvá, sjá hér.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar kemur fram að orðatiltækið „senn bryddir á Barða“ er viðhaft þegar talið er að Kötlugos nálgast. Sagan segir að á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri hafi Katla matselja búið og unnið. Hún hafi þótt forn í skapi og rammgöldrótt. Á sama bæ var sauðmaður sem hét Barði, hann hafi stolið brók af Kötlu og hún hafi hefnt sín með því að kæfa Barða í sýrukeri. Þegar leið á vetur og sýran fór að þrotna í kerinu heyrðist hún muldra „senn bryddir á Barða“ og komst þar með upp um morðið. Tók hún brók sína í kjölfarið og hélt til jökuls, skömmu síðar kom hlaup mikið úr jöklinum og komst sá trúnaður á að fjölkynngi Kötlu matselju hafi valdið þessu. Hlusta má á söguna á heimasíðu Kirkjubæjarklausturs með því að smella hér.

Comments are closed.