Stungur geitungsins

Stungur geitungsins

Betra er að hafa þessa vini í hæfilegri fjarlægð!

Glugginn var opinn, geitungurinn nýtti sér tækifærið og flaug inn. Sá svo sannarlega ekki eftir því. Þarna var eitthvað feitt til matar, sæta lyktin gaf það til kynna. Hann flaug undir peysuna á húsfrúnni, hún hafði í einfeldni sinni spreyjað á sig honey & jasmine ilmi. Þegar undir peysuna var komið uppgötvaði geitungurinn sér til mikillar skelfingar að hann væri fastur! Veiddur eins og þorskur í net. Komst ekki út. „Hvað er þetta, fimm stangir að klóra? Það er verið að gera árás á mig. Ég verð að verja mig. Gagnárás!“ Stunga eitt. Öskur og ofsahræðsla frúarinnar. Stunga tvö. Öskur, húsbóndinn kominn í málið. Vágesturinn tekinn. Kraminn, dauður á gólfinu.

Hver kannast ekki við sögur af þessum toga, þá sérstaklega í ágúst? Geitungarnir flögrandi allt í kringum okkur og hika ekki við að stinga ef þeim er ógnað. Oftast er það óvart, líkt og í tilfelli húsfrúarinnar hér að ofan. Ótal mörg húsráð eru til um hvernig skal bregðast við stungum og bitum. Húsfrúin setti spritt á stungurnar, bað húsbóndann um að kreista eitrið út og reyna að finna broddinn (sem fannst ekki, þ.e. broddurinn – húsbóndinn finnst alltaf), setti tea tree olíu á þær, tók ofnæmistöflu, setti duglega af after bite á stungurnar og kældi með ísmolum í viskustykki (jæja ok, frosnum ávöxtum) í 30 mínútur og aftur í 15 mínútur tveimur tímum seinna. Ýkt í varnarviðbrögðunum sem og mörgu öðru. Samkvæmt upplýsingum á doktor.is brást hún rangt við að hluta. Bitið ætti að láta í friði í byrjun svo það bólgni minna.

Ráð við skordýrabiti og stungum samkvæmt síðunni eru eftirfarandi:

  • Fyrst eftir að hafa verið stunginn ætti að láta bitið í friði og til að draga úr bólgumyndun má halda stungusvæðinu upp á við.
  • Þvoið stunguna með sápu og vatni. Einnig má kæla hana með ísmolum í þvottastykki.
  • Draga má úr kláða með kremi eða hlaupi með staðdeyfandi efni eða antihistamíni.
  • Fjarlægja skal broddinn ef hann er eftir. Hægt er að klóra hann af með nögl, nota greiðslukort, hnífsblað eða flísatöng. Ekki má þrýsta broddinum út þar eð það þrýstir eitrinu enn lengra inn í húðina.
  • Ef viðkomandi hefur ofnæmi fyrir skordýrabiti skal ráðfæra sig við lækni áður en ferðast er og ef til vill hafa meðferðis antihistamín í töflu- eða sprautuformi – en aðeins í nánu samráði við lækni. Verið meðvituð um, að ef útbrot, kláði og almenn vanlíðan gera vart við sig gæti verið nauðsynlegt að kalla til lækni. Notið strax lyfin sem læknirinn hefur látið þig fá. Hafið síðan strax samband við lækni. Ef engin lyf er til skal koma viðkomandi strax undir læknishendur. Ekki má aka bíl vegna þess að viðkomandi gæti misst meðvitund.
  • Ef grunur er á eitruðu biti skal nota eitursugu til að sjúga eitrið út úr stungunni. Eitursuga fæst í apótekinu. Hún er einna líkust sprautu, cialis nema hvað hún virka í hina áttina. Eitursugan er sett yfir bitið og eitrið dregið upp í suguna. Ef ekki er til eitursuga á heimilinu er ráðlegt að kaupa slíka svo að hún sé til taks ef á þarf að halda.

Eitt er víst að eftir ráðleggingar sérfræðinga þá verður eitursuga framvegis til á heimili húsfrúarinnar, svona til öryggis ef annar „vinur“ ákveður að gera árás. Gaman væri að heyra frá ykkur lesendur góðir, hvaða ráð hafið þið gegn geitungum og stungum þeirra?

Comments are closed.