Úrslit kosninganna

Úrslit kosninganna

Kosningaþátttaka frá 1963-2009, upplýsingar frá Hagstofu Íslands.

Kosningaþátttaka frá 1963-2009, upplýsingar frá Hagstofu Íslands.

Úrslit kosninganna lágu fyrir rétt eftir klukkan níu í morgun en þá komu seinustu tölur frá Norðvest­ur­kjör­dæmi. Fyrstu tölur komu frá Suðurkjördæmi rétt fyrir hálfellefu í gærkveldi.

Mikil spenna var í loftinu í alla nótt og voru þingmenn inni og úti til skiptis sem getur verið mjög taugstrekkjandi fyrir frambjóðendur.

Það var Hall­dóra Mo­gensen í Pír­öt­um sem kom inn eft­ir loka­töl­urn­ar en Sigrún Gunn­ars­dótt­ir í Bjartri framtíð sem datt út.

Niðurstöður kosninganna eru að Sjálfstæðisflokkurinn var stærstur með 29% atkvæða (21 þingmann), í öðru sæti komu Vinstri grænir með 15,9% atkvæða (10 þingmenn), í þriðja voru Píratar með 14,5% atkvæða (10 þingmenn), í fjórða Framsóknarflokkurinn með 11,5% atkvæða (8 þingmenn), Viðreisn var með 10,5% atkvæða (7 þingmenn), Björt Framtíð með 7,2% atkvæða (4 þingmenn) og Samfylkingin með 5,7% atkvæða (3 þingmenn). Aðrir flokkar voru undir 5% og náðu ekki mönnum inn á þing.

Kjörsókn var 79,2 prósent sem er minnsta þátt­taka í alþing­is­kosn­ing­um frá lýðveld­is­stofn­un en næstminnsta þátttaka var í kosningunum 2013, þá 81,4%. Aldrei hafa eins margir verið í framboði eins og 2013 og 2016. Það er því leiðinlegt að sjá kosningaþátttökuna fara minnkandi. Sjá mynd hér að ofan af kosningaþátttöku í alþingiskosningum frá stofnun lýðveldisins til 2009.

30 konur munu taka sæti á Alþingi og hefur hlutfall kvenna aldrei verið hærra eftir kosningar. Með því að smella hér má sjá hlutfall kvenna og karla á Alþingi frá 1916. Ánægjulegt er að sjá hlutfall kvenna aukast jafnt og þétt á þingi.

Ríkisstjórnin féll í kosningunum, líkt og skoðanakannanir höfðu bent til. Framsóknarflokkurinn missti 11 menn og hefur ekki fengið eins lítið fylgi síðan hann var stofnaður fyrir 100 árum, 2007 fékk hann 11,7% sem var þá sögulega minnsta fylgið hans frá stofnun. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig tveimur mönnum frá 2013 sem er ákveðinn sigur í ljósi þess klofnings sem varð í flokknum fyrir kosningar og að ríkisstjórnin varð frá að hverfa vegna óánægju. Fylgi flokksins hefur verið í sögulegu lágmarki síðan 2007 en virðist vera að rísa aftur upp. Fylgi Samfylkingarinnar hríðféll og tapaði hún sjö þingmönnum. Samfylkingin hefur aldrei fengi jafn lítið fylgi áður, jafnvel gamli Alþýðuflokkurinn fékk aldrei svona slæma útreið í kosningum. Viðreisn vann góðan sigur sem nýr flokkur með sjö þingmenn og hefur það ekki gerst að nýr flokkur fari yfir 10% síðan Borgaraflokkurinn náði 1987 10,9% fylgi og sjö mönnum inn í sínum fyrstu kosningum.

Píratar unnu góðan sigur frá seinustu kosningum og bættu við sig sjö mönnum, helstu vonbrigðin fyrir Pírata var að skoðanakannanir sýndu þá fá enn meira fylgi en raun bar vitni. Vinstri Grænir bættu við sig 5% fylgi og þremur mönnum frá seinustu kosningum, þeir voru að vonum mjög sælir með sín úrslit í gær. Björt Framtíð missti aftur á móti tvo menn og þann seinni þegar lokatölur komu í morgun, líkt og fram kom hér að ofan. Það hefur verið mjög svekkjandi.

Ekki er möguleiki á að mynda tveggja flokka stjórn með meirihluta en þriggja flokka stjórn er möguleg með aðkomu Sjálfstæðisflokks. Kosningabandalag Pírata, VG, Samfylkingar og Bjartrar Framtíðar nær ekki nægilegum fjölda þingmanna til þess að mynda meirihluta og því ná þeir flokkar ekki að mynda þá stjórn sem þeim hugnaðist fyrir kosningar. Stjórnarmyndun verður afskaplega flókin og því spennandi að sjá á næstu dögum hver fær umboðið frá forseta Íslands.

Nú þegar hefur Sigurður Ingi Jóhannesson, forsætisráðherra, gengið á fund forseta og beðist lausn­ar fyr­ir sig og rík­is­stjórn sína. Forsetinn hefur einnig tilkynnt hvernig hann muni ræða við flokkana um nýja stjórnarmyndun.  Í tilkynningu frá forsetaembættinu kemur fram að hann muni ræða við formenn allra flokka og röðin á flokkunum verði í samræmi við þann fjölda þingmanna sem hver flokkur fékk kjörinn. Gefur forseti sér klukkutíma með hverjum formanni fyrir sig.

Fundur forseta og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, verður klukkan 10. Fundur forseta og Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, verður klukkan 11. Fundur forseta og Birgittu Jónsdóttur, Smára McCarthy og Einars Aðalsteins Brynjólfssonar frá Pírötum verður klukkan 12. Fundur forseta og Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, verður klukkan 13. Fundur forseta og Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, verður klukkan 14. Fundur forseta og Óttars Proppé, formanns Bjartrar framtíðar, verður klukkan 15 og fundur forseta og Oddnýjar Harðardóttur, formanns Samfylkingarinnar, verður klukkan 16.

Að lokum er vert að skoða betur niðurstöður kosninganna og þá þingmenn sem munu taka sæti á Alþingi næstu fjögur árin. Þeir sem vilja kafa dýpra geta skoðað úrslit alþingiskosninga frá 1963-2013 með því að smella hér.

Sjálfstæðisflokkurinn var stærstur. Hann fékk 55,050 atkvæði (29%) og 21 þingmann. Flokkurinn fékk engin jöfnunarsæti. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru: Haraldur Benediktsson (Norðvestur), Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir (Norðvestur), Teitur Björn Einarsson (Norðvestur), Kristján Þór Júlíusson (Norðaustur), Njáll Trausti Friðbertsson (Norðaustur), Valgerður Gunnarsdóttir (Norðaustur), Páll Magnússon (Suður), Ásmundur Friðriksson (Suður), Vilhjálmur Árnason (Suður), Unnur Brá Konráðsdóttir (Suður), Bjarni Benediktsson (Suðvestur), Bryndís Haraldsdóttir (Suðvestur), Jón Gunnarsson (Suðvestur), Óli Björn Kárason (Suðvestur), Vilhjálmur Bjarnason, (Suðvestur), Ólöf Nordal (Reykjavík suður), Brynjar Níelsson (Reykjavík suður), Sigríður Á. Andersen (Reykjavík suður), Guðlaugur Þór Þórðarson (Reykjavík norður), Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (Reykjavík norður) og Birgir Ármannsson (Reykjavík norður).

Vinstri grænir voru næststærstir með 30,116 atkvæði (15,9%) og 10 þingmenn. Flokkurinn fékk eitt jöfnunarsæti. Þingmenn Vinstri grænna eru: Lilja Rafney Magnúsdóttir (Norðvestur), Steingrímur J. Sigfússon (Norðaustur), Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Norðaustur), Ari Trausti Guðmundsson (Suður), Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Suðvestur), Svandís Svavarsdóttir (Reykjavík suður), Kolbeinn Óttarsson Proppé (Reykjavík suður), Katrín Jakobsdóttir (Reykjavík norður) og Steinunn Þóra Árnadóttir (Reykjavík norður). Andrés Ingi Jónsson (Reykjavík norður) komst inn á jöfnunarsæti.

Píratar fengu 27,449 atkvæði (14,5%) og 10 þingmenn. Flokkurinn fékk eitt jöfnunarsæti. Þingmenn Pírata eru: Eva Pandora Baldursdóttir (Norðvestur), Einar Aðalsteinn Brynjólfsson (Norðaustur), Smári McCarthy (Suður), Jón Þór Ólafsson (Suðvestur), Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (Suðvestur), Ásta Guðrún Helgadóttir (Reykjavík suður), Gunnar Hrafn Jónsson (Reykjavík suður), Birgitta Jónsdóttir (Reykjavík norður) og Björn Leví Gunnarsson (Reykjavík norður). Halldóra Mogensen (Reykjavík norður) komst inn á jöfnunarsæti.

Framsóknarflokkurinn fékk 21,791 atkvæði (11,5%) og átta þingmenn. Flokkurinn fékk engin jöfnunarsæti. Þingmenn Framsóknarflokksins eru: Gunnar Bragi Sveinsson (Norðvestur), Elsa Lára Arnardóttir (Norðvestur), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Norðaustur), Þórunn Egilsdóttir (Norðaustur), Sigurður Ingi Jóhannsson (Suður), Silja Dögg Gunnarsdóttir (Suður), Eygló Harðardóttir (Suðvestur) og Lilja Dögg Alfreðsdóttir (Reykjavík suður).

Viðreisn fékk 19,870 atkvæði (10,5%) og sjö þingmenn. Flokkurinn fékk þrjú jöfnunarsæti. Þingmenn Viðreisnar eru: Jóna Sólveig Elínardóttir (Suður), Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Suðvestur), Hanna Katrín Friðriksson, (Reykjavík suður) og Þorsteinn Víglundsson (Reykjavík norður). Benedikt Jóhannesson (Norðaustur), Jón Steindór Valdimarsson (Suðvestur) og Pawel Bartoszek (Reykjavík suður) komust inn á jöfnunarsætum.

Björt framtíð fékk 13,578 atkvæði (7,2%) og fjóra þingmenn. Flokkurinn fékk tvö jöfnunarsæti. Þingmenn Bjartrar framtíðar eru: Óttarr Proppé (Suðvestur) og  Björt Ólafsdóttir (Reykjavík norður). Nichole Leigh Mosty (Reykjavík suður) og Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Suðvestur) komust inn á jöfnunarsætum.

Samfylkingin fékk 10,893 atkvæði (5,7%) og þrjá þingmenn. Flokkurinn fékk tvö jöfnunarsæti. Þingmenn Samfylkingarinnar eru: Logi Már Einarsson (Norðaustur). Oddný G. Harðardóttir (Suður) og Guðjón S. Brjánsson (Norðvestur) komust inn á jöfnunarsætum.

Aðrir flokkar voru undir 5% og fá ekki þingmann inn. Flokkur fólksins fékk 6,707 atkvæði (3,5%). Dögun stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði fékk 3,275 atkvæði (1,7%). Alþýðufylkingin fékk 575 atkvæði (0,3%). Íslenska þjóðfylkingin fékk 303 atkvæði (0,2%). Húmanistaflokkurinn fékk 33 atkvæði (0,0%).

One Comment

  1. Nú á forseti vor alla mína samúð að reyna að mynda starfhæfa ríkisstjórn.