Útgáfutónleikar – Reggie Óðins og hljómsveit

Útgáfutónleikar – Reggie Óðins og hljómsveit

reggie-odins-plataEyjamærin Reggie Óðins hefur nú gefið út sína þriðju plötu ásamt hljómsveit sinni og ætlar að fagna áfanganum með því að halda útgáfutónleika á Háaloftinu í Vestmannaeyjum laugardaginn 22. október kl. 21:30.

Platan ber titilinn Life’s about the journey og fjalla lögin um margt af því sem lífið hefur upp á að bjóða, bæði súrt og sætt. 

Frítt verður inn á tónleikana og er það gert í þakklætisskyni, þau eru yfir sig ánægð með viðtökurnar sem platan þeirra hefur fengið í Eyjum sem og á Suðurlandi. Vonast þau eftir að sem flestir sjái sér fært að koma og fagna með þeim á laugardaginn kemur.

Reggie Óðins og hljómsveit hafa spilað saman síðan árið 2013. Meðlimir bandsins eru: Reggie Óðins – söngur og textahöfundur, Anton Rafn Gunnarsson – kassagítar, texta- og lagahöfundur, Sævar Árnason: rafmagnsgítar og lagahöfundur, Óðinn Hilmisson – bassi og Þorbergur Skagfjörð Ólafsson – trommur.

Fyrsta platan sem þau gáfu út heitir Hafið og kom út árið 2013, hlusta má á lag af plötunni með því að smella hér. Önnur plata þeirra kom út árið 2014 og ber heitið Haust, smellið hér til að heyra lag af þeirri plötu. Nýjasta platan er í öðrum anda en hinar tvær þar sem hún er samin á ensku og tónlistin mun rokkaðari en á fyrri plötum.

Reggie Óðins og hljómsveit munu einnig spila á Eyjatónum á Café Rosenberg, Klapparstíg 25-27, á föstudagskvöldið kemur kl. 21. Þar munu ungir tónlistarmenn frá Vestmannaeyjum koma saman og flytja tónlist sína, þ.e. Reggie Óðins og hljómsveit, Sindri Freyr og Foreign Land.

 

Comments are closed.