Eigendur Velferðar, Agnes Þorsteinsdóttir og Svanhildur Ólafsdóttir

Eigendur Velferðar, Agnes Þorsteinsdóttir og Svanhildur Ólafsdóttir

VELFERÐ – Nýtt fyrirtæki á Suðurlandi

Eigendur Velferðar, Agnes Þorsteinsdóttir og Svanhildur Ólafsdóttir

Eigendur Velferðar, Agnes Þorsteinsdóttir og Svanhildur Ólafsdóttir

Í byrjun hausts tók til starfa nýtt sunnlenskt þjónustufyrirtæki sem ber heitið Velferð, fræðslu-og velferðarmiðstöð. Eigendur Velferðar, Agnes Þorsteinsdóttir og Svanhildur Ólafsdóttir hafa báðar lokið masterprófi til starfsréttinda í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands auk þess að hafa bætt við þekkingu sína og menntun í fjölskyldumeðferð og vinnu með stjúpfjölskyldum svo dæmi séu nefnd. Agnes og Svanhildur eru í samstarfi við aðra sérfræðinga svo sem sálfræðing, iðjuþjálfa, hjúkrunarfræðing og fleiri fagstéttir en Velferð er einmitt ætlað að vera miðstöð sérfræðinga þar sem boðið er uppá þjónustu á breiðu sviði er snýr að velferð fólks. „Við leggjum okkur fram við að mæta þörfum einstaklinga, fjölskyldna, stofnana og fyrirtækja hvað varðar fræðslu, námskeið, viðtöl eða aðra þjónustu“.

En hvað gera félagsráðgjafar?

Félagsráðgjafar hafa fjölþætta þekkingu og  vinna mjög gjarnan með fólki í neyð eða fólki sem vantar aðstoð vegna erfiðleika eða einhverskonar krísu í lífi sínu. Sumir lýsa starfi félagsráðgjafa sem ákveðnu stuðnings- og réttargæslu hlutverki. Félagsráðgjafar vinna mikið út frá heildarsýn og hugmyndinni um ólík kerfi samfélagsins (kerfiskenningum). Félagsráðgjafa má í raun finna í allri velferðarþjónustu: Í félagsþjónustu, barnavernd, á spítölum, í vinnu hjá bæjarfélögum eða ríki, á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, á endurhæfingarstofnunum, í öldrunarþjónustu, í fötlunarþjónustu og svona mætti lengi áfram telja. Félagsráðgjafar vinna líka margir sjálfstætt við einstaklings- og sambandsráðgjöf, fjölskyldu- og uppeldisráðgjöf og veita almenna ráðgjöf varðandi réttindi og skyldur innan heilbrigðis- og félagssviðs.

Í fyrri störfum sínum hafa Agnes og Svanhildur fundið fyrir þörf á aukinni þjónustu á svæðinu við einstaklinga, fjölskyldur og stofnanir og er starfsemi Velferðar góð viðbót við þá þjónustu sem fyrir er.

Hvað varð til að þið stofnuðuð Velferð?

Okkur langaði að stíga út fyrir rammann og nýta menntun okkar og þekkingu til að skapa og þróa út frá þörfinni í samfélaginu“, segja þær Agnes og Svanhildur en báðar hafa þær reynslu af störfum innan velferðarþjónustu. „Það er allt of oft sem einstaklingum er vísað í frekari úrræði á höfuðborgarsvæðinu því þau hafa ekki verið í boði á okkar svæði. Að okkar mati getur það skipt sköpum fyrir einstaklinga að fá þjónustuna í heimabyggð“.

Starfsemi Velferðar er svo til ný farin af stað og segja þær Agnes og Svanhildur að móttökurnar hafi verið mjög góðar; „við höfum mætt góðum samstarfsvilja af hálfu félagsþjónustanna á suðurlandi, fyrirtækja og stofnana á sviði velferðar og ekki síður almennings sem tekur þjónustu okkar fagnandi. Margir eru sammála um að aukinnar þjónustu hafi verið þörf og ekki síst fyrir börn. Í sumar héldu þær stjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn sem gaf góða raun og almenn ánægja var með.

En hvaða þjónustu er Velferð að bjóða uppá?

Við erum með fjölbreytt úrval námskeiða sem við höldum ýmist fyrir stofnanir og fyrirtæki eða á eigin vegum þar sem öllum er frjálst að taka þátt. Við leggjum mikið upp úr að veita persónulega og faglega þjónustu og reynum að mæta þörfum viðskiptavina okkar. Fjölskyldumál eru eitt af okkar áhugamálum og veitum við fjölskylduráðgjöf, uppeldisráðgjöf, samskiptaráðgjöf og para/hjónabandsráðgjöf.

Okkur finnst einnig mikilvægt að við séum hreyfanlegar með okkar þjónustu og viljum geta þjónustað helst alla landsbyggðina ef því er að skipta. Við setjum okkur engin takmörk innan fagmenntunar okkar og hvetjum fólk því til að viðra óskir sínar og hugmyndir við okkur“.

Fræðsla og forvarnir eru okkur ofarlega í huga og leggjum við töluverða áherslu á námskeið fyrir börn og unglinga sem miða að því að efla sjálfstraust og sjálfsmynd þeirra. Sterk sjálfsmynd er ein besta forvörnin og viljum við auka meðvitund um það“.

Nú á haustmánuðum erum við einmitt að fara af stað með námskeið fyrir stúlkur á aldrinum 10-12 ára og 13-15 ára.

Velferð er til húsa að Austurvegi 6, á 3.hæð. Í húsnæðinu eru þrjár skrifstofur og miðrými sem við notum fyrir hópa, fyrirlestra og námskeið. Sálfræðiskrifstofan Mind, er í einni af skrifstofunum. Bæði fyrirtækin njóta góðs af samvinnunni og fyrir vikið er hægt að bjóða uppá þverfaglegt samstarf sem eykur gæði þjónustunnar enn frekar. Ein skrifstofan er laus til útleigu frá og með næstu mánaðarmótum og væri kjörið tækifæri fyrir sjálfstætt starfandi sérfræðing á sviði velferðar að nýta sér möguleikana sem felast í samvinnunni í húsnæðinu.

Að lokum hvetjum við alla til að kynna sér betur þjónustu Velferðar á heimasíðu okkar www.minvelferd.is eða senda okkur fyrirspurnir á velferd@minvelferd.is

Svo erum við á Facebook undir nafninu Velferð.

One Comment

  1. Oddný Ōgm says:

    það þarf dugnað og áræðni til að láta drauma sína rætast, glæsilegt hjá ykkur ungu konur. Óska ykkur velfarnaðar ?????