Viðvörunarbjöllurnar klingja… heyrir þú ekki í þeim?!

Viðvörunarbjöllurnar klingja… heyrir þú ekki í þeim?!Tölvan (síminn, Ipad og önnur tæki sem hægt er að spila leiki eða tengjast við netið teljast með), er notuð til að kaupa sér frið, til að þagga niður í suði eða væli í krakkanum þegar foreldrar hafa ekki þolinmæði til að takast á við vandann.

Tölvan (síminn, Ipad og önnur tæki sem hægt er að spila leiki eða tengjast við netið teljast með), er notuð til að kaupa sér frið …

Ég hef áhyggjur af börnunum okkar! Já ég hef líka áhyggjur af börnunum þínum því þau eru framtíðin, alveg jafn mikið og börnin mín. Ég hef áhyggjur vegna þess að ég sé allt of mörg dæmi um að foreldrar sjá ekki eða bregðast ekki við viðvörunarbjöllunum sem klingja þegar hætta steðjar að.

Ég er að tala um tölvunotkun barna sem verður að vandamáli því það er ekki gripið inní þegar viðvörunarbjöllurnar klingja.

Það fæðist ekkert barn með tölvufíkn og því er um að ræða áunnið vandamál. Ábyrgðin er í höndum foreldra en börnin glíma við afleiðingarnar. Félagsleg einangrun, almennt áhugaleysi á daglegri rútínu, vanvirkni í skóla, hegðunarvandamál, óregla á svefni, óregla í mataræði, neikvæðni og skapsveiflur svo eitthvað sé nefnt.

Tölvan (síminn, Ipad og önnur tæki sem hægt er að spila leiki eða tengjast við netið teljast með), er notuð til að kaupa sér frið, til að þagga niður í suði eða væli í krakkanum þegar foreldrar hafa ekki þolinmæði til að takast á við vandann. Foreldrum er hrósað fyrir hversu róleg og stillt börn þau eiga… enda fer ekki mikið fyrir þeim þegar þau sitja með nefið fast á skjánum.

Viðvörunarbjöllurnar eru óþægilegar. Þær eru ekki skemmtilegar og það krefst orku, reglu og rútínu að þagga niður í þeim. Þegar barnið t.d. pissar á sig því það getur ekki staðið upp frá tölvunni, þegar barnið fer að gráta eða öskrar þegar tölvan er tekin. Þegar barnið bregst illa við þegar það fær neitun um að fá að fara í tölvuna, þegar barnið talar um að það finni til í augunum eða sé með hausverk er eins gott fyrir okkur foreldrana að hlusta!

Hvað erum við að bjóða börnunum okkar uppá? Ekki höldum við í alvörunni að við séum bestu og skemmtilegustu foreldrar í heimi ef við leyfum börnunum okkar að vera ótakmarkað í tölvunni! Erum við í alvöru að réttlæta tölvunotkunina með því að þá vitum við allavega hvar barnið er eða hvað það er að gera, að það sé nú allt í lagi að barnið sé í tölvunni því það sé nú ekkert að horfa á neitt ljótt eða spila ljóta leiki.

Það hræðir mig þegar foreldrar segjast ekkert geta gert, þeir ráði bara ekkert við ástandið. En það hræðir mig jafnvel enn meira þegar foreldrar eru ekki tilbúnir að sjá eða viðurkenna vandann og hafa náð að sannfæra sjálfan sig og jafnvel barnið að vandi þess (sem sagt afleiðingarnar af tölvunotkun) sé sprottinn vegna einhvers annars, af því að einhver annar gerði eitthvað eða gerði ekki eitthvað.

Ábyrgðin er alltaf okkar foreldranna!

Comments are closed.