Yfirlýsing forseta Íslands

Yfirlýsing forseta Íslands

forseti-islandsForseti Íslands sendi áðan frá sér eftirfarandi yfirlýsingu um stöðu mála varðandi stjórnarmyndunarviðræður flokkanna:

„Föstudaginn 2. desember fékk Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, umboð forseta Íslands til stjórnarmyndunar, fyrir hönd hennar og tveggja annarra þingmanna sem eru fulltrúar Pírata í stjórnarmyndunarviðræðum, þeirra Einars Brynjólfssonar og Smára McCarthy.

Síðastliðna tíu daga hafa átt sér stað viðræður um myndun ríkisstjórnar Pírata, Bjartrar framtíðar, Samfylkingar, Viðreisnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Síðdegis í dag tilkynntu Birgitta, Einar og Smári mér að þær viðræður hefðu ekki leitt til myndunar ríkisstjórnar. Á fundi okkar á Bessastöðum skilaði hún mér umboði til stjórnarmyndunar.

Í dag hef ég rætt við formenn annarra stjórnmálaflokka á Alþingi um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin. Rúmar sex vikur eru liðnar frá kosningum þegar ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar missti meirihluta sinn á þingi og hann baðst lausnar fyrir hönd þess. Nú hafa formenn eða fulltrúar þriggja stærstu flokkanna á Alþingi allir haft umboð forseta til stjórnarmyndunar. Ýmsar leiðir hafa verið ræddar
og reyndar.

Í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram komu í viðræðum mínum við flokksleiðtoga í dag hef ég ákveðið að veita engum þeirra umboð til stjórnarmyndunar að sinni. Þess í stað hvatti ég þá til að ráða ráðum sínum og kanna með óformlegum viðræðum sín á milli hvaða leiðir eru enn mögulegar til myndunar ríkisstjórnar sem njóti meirihlutastuðnings á Alþingi eða geti að minnsta kosti varist þar vantrausti. Í samtölum mínum við forystufólk flokkanna nefndi ég einnig þau brýnu verkefni sem bíða úrlausnar á Alþingi og krefjast góðrar samvinnu og samstöðu.

Loks minnti ég flokksleiðtogana á þá ábyrgð þeirra og skyldu að ná samkomulagi um myndun ríkisstjórnar. Ég tjáði þeim að ég vænti tíðinda í þeim efnum í þessari viku.“

 

Comments are closed.